EN

Marianna spilar Grieg

Áskrift að tónleikaröð eða Regnbogakorti tryggir þér öruggt sæti á besta verðinu með 20% afslætti
Dagsetning Staðsetning Verð
10. jún. 2022 » 19:30 » Föstudagur Eldborg | Harpa 2.900 – 8.500 kr.

Píanókonsert Griegs er einn vinsælasti konsert rómantíska skeiðsins, enda hrífandi blanda af glæsilegum tilþrifum einleikarans, djúpri tjáningu og léttum blæ norskra þjóðlaga. Armensk-danski píanóleikarinn Marianna Shirinyan hefur hlotið fjölda verðlauna fyrir innblásinn leik, meðal annars verðlaun danskra gagnrýnenda og sérstök menningarverðlaun DR, danska útvarpsins. Hún hefur um árabil setið í dómnefnd Grieg-keppninnar í Bergen auk þess sem hún er prófessor í píanóleik við Tónlistarháskólann í Ósló, og veit því upp á hár hvernig á að túlka tónlist norska meistarans.

Á tónleikunum hljómar einnig íslensk leikhús- og balletttónlist eftir tvö leiðandi íslensk tónskáld 20. aldar, Pál Ísólfsson og Jórunni Viðar. Úr myndabók Jónasar Hallgrímssonar er hrífandi leikgerð sem Halldór Laxness vann úr sögum og ljóðum listaskáldsins góða og var frumsýnd árið 1945. Tónlist Páls er leikandi létt og gamansöm, náði miklum vinsældum á sinni tíð en hefur legið í gleymsku svo áratugum skiptir. Sama má segja um Veisluna á Sólhaugum, tónlist hans við leikrit Ibsens. Ballettar Jórunnar Viðar, Eldur og Ólafur liljurós, eru tímamótaverk, fyrstu hljómsveitarverk íslenskrar konu og fyrstu ballettarnir eftir íslenskt tónskáld sem fluttir voru á Íslandi. Í kjölfar tónleikanna verða verkin hljóðrituð í samstarfi við Chandos-plötuforlagið til útgáfu á alþjóðlegum markaði.

Rumon Gamba þarf vart að kynna fyrir íslenskum tónleikagestum en hann var aðalstjórnandi Sinfóníuhljómsveitar Íslands árin 2002–2010. Hann var nýverið ráðinn aðalstjórnandi Sinfóníuhljómsveitarinnar í Oulu í Finnlandi.

 

Sækja tónleikaskrá