EN

Aðventutónleikar

Meistarar barokksins

Áskrift að tónleikaröð eða Regnbogakorti tryggir þér öruggt sæti á besta verðinu með 20% afslætti
Dagsetning Staðsetning Verð
5. des. 2019 » 19:30 - 21:30 » Fimmtudagur Eldborg | Harpa 2.600 - 8.100 kr.

Á aðventutónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands hljóma perlur eftir meistara barokktónlistar frá 17. og 18. öld. Georg Philipp Telemann var að mestu sjálflærður í tónlist en varð eitt dáðasta tónskáld Þýskalands á 18. öld og enn er hann meðal afkastamestu tónskálda sögunnar. Telemann samdi Alster-svítuna árið 1725, þá nýfluttur til Hamborgar þar sem hann var tónlistarstjóri um áratuga skeið. Létt og gamansöm tónlistin lýsir lífinu við bakka árinnar Alster sem rennur í gegnum Hamborg. Á tónleikunum leikur hljómsveitin einnig hljómsveitarsvítu nr. 4 eftir Bach en svíturnar eru dáðar um víða veröld. 

Á síðari hluta tónleikanna hljóma verk eftir tvö frönsk tónskáld. Jean-Baptiste Lully var hirðtónskáld Loðvíks XIV og átti stóran þátt í að skapa hina tignarlegu frönsku barokkóperu. 

Samstarf hans við leikskáldið Molière gat meðal annars af sér gamanballettinn Le Bourgeois gentilhomme árið 1670, og hér hljómar úrval úr þáttum hans. Einnig hljóma tveir þættir úr ballettinum Les indes galantes, eftir arftaka Lullys á sviði franskrar óperu, Jean-Philippe Rameau.

Rússneski hljómsveitarstjórinn Maxim Emelyanychev hefur vakið mikla athygli undanfarin ár, ekki síst fyrir áhugaverða túlkun sína á tónlist barokksins. Hann lærði sitt fag í Moskvu hjá Íslandsvininum Gennadíj Rosdestvenskíj en er einnig afburða semballeikari og margverðlaunaður sem slíkur. Hann hefur um árabil verið aðalstjórnandi ítalska barokkhópsins Il Pomo d'Oro, sem meðal annars hefur flutt barokkóperur í Versölum, Vínarborg og Lundúnum, en meðal nýjustu verkefna hans er geisladiskur með bandarísku söngstjörnunni Joyce DiDonato. Nýverið var tilkynnt að hann muni taka við stjórn Skosku kammersveitarinnar á næsta ári.

Sækja tónleikaskrá