EN

Ottensamer og Canellakis

  • 26. okt. 2017 » 19:30 Eldborg | Harpa 2.500 - 7.500 kr.
  • Hlusta

Karina Canellakis er ein skærasta stjarnan meðal ungra hljómsveitarstjóra í dag. Þessi fyrrum lærlingur Simons Rattle hlaut hin virtu Georg Solti-verðlaun árið 2016 og komst í heimsfréttirnar þegar hún hljóp í skarðið fyrir Jaap van Zweden með nær engum fyrirvara og stjórnaði tónleikum með miklum glæsibrag. Andreas Ottensamer er fyrsti klarínettleikari Berlínarfílharmóníunnar og segja má að tónlistin sé honum í blóð borin þar sem faðir hans gegndi sömu stöðu hjá Vínarfílharmóníunni. Hljómdiskar Ottensamers fyrir Deutsche Grammophon hafa hlotið frábæra dóma og á þessum tónleikum leikur hann þrjú verk, líflegan konsert eftir Stamitz og tvö smærri verk eftir Brahms og Amy Beach. 

Felix Mendelssohn var ekki nema 17 ára gamall þegar hann samdi forleikinn ógleymanlega að Draumi á Jónsmessunótt, þar sem hann fangar fullkomlega stemninguna í leikriti Shakespeares. Sinfónía nr. 2 eftir Brahms er hans dáðasta sinfónía enda er hún sérlega ljúf og áheyrileg. Einn vinur tónskáldsins lýsti verkinu svo: Ekkert nema heiðblár himinn, lækjarniður, sólskin og græn forsæla!

Sækja tónleikaskrá