EN

Stravinskíj og Britten

Áskrift að tónleikaröð eða Regnbogakorti tryggir þér öruggt sæti á besta verðinu með 20% afslætti
Dagsetning Staðsetning Verð
2. feb. 2017 » 19:30 » Fimmtudagur Eldborg | Harpa 2.500 - 7.200 kr.

Á þessum tónleikum hljómar áhrifamikil tónlist eftir tvö lykiltónskáld frá fyrri hluta 20. aldar. Þeir Stravinskíj og Britten héldu báðir til Bandaríkjanna þegar heimsstyrjöldin síðari braust út, og þar urðu flest verkin á þessari efnisskrá til. Fiðlukonsert Brittens þykir eitt hans allra besta verk, með tjáningarfullri lýrík í bland við dramatísk tilþrif. Fáeinum árum síðar samdi Stravinskíj fyrsta stóra verk sitt eftir flutninginn til Bandaríkjanna, verk sem hann sjálfur kallaði „stríðssinfóníuna“ og er dekkri og kraftmeiri tónsmíð en hann hafði þá samið um nokkra hríð. Kammerkonsertinn Dumbarton Oaks er létt og áheyrilegt verk í nýklassískum stíl sem tekur mið af Brandenborgarkonsertum Bachs.
Viviane Hagner er meðal fremstu fiðluleikara Þýskalands. Hún hefur leikið með öllum helstu hljómsveitum heims og kemur reglulega fram með tónlistarmönnum á borð við Daniel Barenboim og Yo-YoMa.

Matthew Halls er íslenskum tónleikagestum að góðu kunnur, en hann hefur stjórnað hér reglulega frá árinu 2009. Hann nýtur mikillar virðingar um allan heim fyrir túlkun sína og fékk nýverið frábæra dóma hjá helstu blöðum Berlínar fyrir flutning sinn á Jóhannesarpassíu Bachs. 

Sækja tónleikaskrá