EN

Tvær sinfóníur og Tokkata

Tryggðu þér sæti á besta verðinu. Veldu ferna eða fleiri tónleika á Regnbogakort með 20% afslætti
  • 14. mar. 2019 » 19:30 Eldborg | Harpa 2.500 - 4.500 kr.

Tvær nýjar sinfóníur hljóma á þessum tónleikum sem helgaðir eru nýrri og nýlegri íslenskri tónlist. Þorsteinn Hauksson hefur um árabil verið búsettur á meginlandi Evrópu og hefur þrívegis verið tilnefndur til Tónskáldaverðlauna Norðurlandaráðs. Sinfónía hans nr. 2 (2014) er í átta stuttum köflum sem kallast á við japanskar haikur þar sem dregin eru upp flöktandi hugskot og hugdettur. John Speight hefur starfað sem tónskáld, söngvari og kennari á Íslandi síðan hann fluttist til landsins árið 1972. Hann hefur samið langt í 200 tónverk af ýmsum stærðum og gerðum, meðal annars konserta og sinfóníur. Þegar Sinfóníuhljómsveitin frumflutti sellókonsert hans árið 2014 komst einn gagnrýnandi svo að orði að verkið hefði verið „mögnuð upplifun“. Fimmta sinfónía Speights er samin á árunum 2009–2016. Hún skiptist í fjóra þætti og þrjú millispil sem tileinkuð eru minningu um kæra vini tónskáldsins.

Tokkata eftir Karólínu Eiríksdóttur er nokkuð eldra verk, kraftmikil tónsmíð samin fyrir Orkester Norden árið 1999. Illumine eftir Önnu Þorvaldsdóttur, staðartónskáld Sinfóníunnar, var samið árið 2016 fyrir hinn víðfræga franska tónlistarhóp Ensemble Intercontemporain. Anna-Maria Helsing hefur náð frábærum árangri á tónleikum sínum með Sinfóníuhljómsveit Íslands og hún er vel kunnug íslenskri tónlist, stjórnaði meðal annars flutningi á óperu Karólínu, Magnus Maria, víða á Norðurlöndum fyrir fáeinum árum. Þessir tónleikar eru ómissandi fyrir þá sem vilja fylgjast með hinu nýjasta í íslenskri tónsköpun. 

Vinafélag Sinfóníuhljómsveitar Íslands býður á opna kynningu með Árna Heimi Ingólfssyni, listrænum ráðgjafa hljómsveitarinnar, í Hörpuhorni kl. 18:20 í aðdraganda tónleikanna. Þar mun Árni Heimir kynna dagskrá næsta starfsárs hljómsveitarinnar ásamt því að gefa tónleikagestum innsýn í verkin sem hljóma á tónleikunum.

Sækja tónleikaskrá