EN

Yrkja V - uppskerutónleikar

Tónskáldastofa Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Tónverkamiðstöðvar

Tryggðu þér besta verðið með 20% afslætti með því að kaupa miða á ferna tónleika eða fleiri – Regnbogakort
Dagsetning Staðsetning Verð
31. jan. 2020 » 12:00 » Föstudagur Norðurljós | Harpa Aðgangur ókeypis

Sinfóníuhljómsveit Íslands hefur fjögur undanfarin starfsár tekið þátt í Yrkju sem er samstarfsverkefni Íslenskrar tónverkamiðstöðvar og ýmissa tónlistarstofnana og tónlistarhópa, og þannig gefið ungum tónskáldum tækifæri til að kynnast hljómsveitinni í návígi. Nú efnir hljómsveitin til slíks samstarfs í fimmta sinn. Fimm manna dómnefnd, skipuð tónskáldum og meðlimum Sinfóníunnar, valdi tónskáld til þátttöku og urðu þau Eygló Höskuldsdóttir Viborg og Sigurður Árni Jónsson hlutskörpust. Þau munu starfa með hljómsveitinni í níu mánuði og fá þannig tækifæri til að þróa færni sína í að semja fyrir hljómsveit og verða verk þeirra frumflutt á þessum hádegistónleikum í Norðurljósum. Elísabet Indra Ragnarsdóttir munu einnig spjalla við tónskáldin um verkin og tilurð þeirra. 

Sigurður Árni Jónsson lærði tónsmíðar við Listaháskóla Íslands og lauk meistaraprófi frá Tónlistarháskólanum í Gautaborg, auk þess að vera menntaður gítarleikari. Verk hans hafa verið flutt víða á Norðurlöndum, meðal annars af Sinfóníuhljómsveitinni í Norrköping, Esbjerg-tónlistarhópnum í Danmörku og Caput. Hann átti einnig verk á Myrkum músíkdögum og Ung Nordisk Musik árið 2017.

Eygló Höskuldsdóttir Viborg stundar nú meistaranám í tónsmíðum við New York University undir handleiðslu Juliu Wolfe, en hún lauk bakkalársprófi í tónsmíðum með hæstu einkunn frá Berklee College of Music árið 2017. Tónlist hennar hefur verið flutt bæði í Boston og New York af hópum á borð við JACK Quartet og Quince Ensemble. Hún söng um árabil með Graduale Nobili, sem tók meðal annars þátt í Biophilia-verkefni Bjarkar Guðmundsdóttur og kom fram á tónleikum með henni víða um heim.

YRKJA miðar að því að búa tónskáld undir starf í faglegu umhverfi hjá hljómsveitum, hátíðum og öðrum listastofnunum. Anna Þorvaldsdóttir, staðartónskáld Sinfóníunnar, hefur veg og vanda af tónskáldastofunni en auk hennar vinnur Bjarni Frímann Bjarnason, aðstoðarstjórnandi hljómsveitarinnar, náið með höfundum.

Aðgangur er ókeypis á Yrkju-tónleikana og allir velkomnir.