EN

Jess Gillam og Prokofíev

Áskrift að tónleikaröð eða Regnbogakorti tryggir þér öruggt sæti á besta verðinu með 20% afslætti
Dagsetning Staðsetning Verð
28. okt. 2021 » 19:30 » Fimmtudagur Eldborg | Harpa 2.900 – 8.500 kr.

Breski saxófónleikarinn Jess Gillam hefur vakið fádæma hrifningu tónlistarunnenda undanfarin ár. „Hún breiðir út gleði hvar sem hún fer“ sagði The Times um leik hennar, en Gillam kom meðal annars fram á hinum frægu Last Night of the Proms-tónleikum árið 2018 og diskar hennar hafa náð metsölu. Á tónleikunum flytur hún fantasíu Villa-Lobos fyrir saxófón og hljómsveit en einnig síðrómantískan konsert Glazúnovs, rússneska tónskáldsins sem í dag er helst kunnur fyrir að hafa kennt Shostakovitsj tónsmíðar.

Ryan Bancroft stal senunni í Malko-hljómsveitarstjórakeppninni árið 2018, þar sem bæði fyrstu verðlaun og áheyrendaverðlaun féllu honum í skaut. Bancroft er aðalstjórnandi Þjóðarhljómsveitar BBC í Wales, og tónleikarýnir The Guardian sagði nýverið að sem stjórnandi hafi hann „bæði kraft og þokka“ og að túlkun hans hafi verið „ótrúlega áhrifarík og fögur“.

Doreen Carwithen var afkastamikið breskt tónskáld um miðja 20. öld, samdi tónlist við um 30 kvikmyndir auk hljómsveitarverka og kammertónlistar. Verk hennar lágu um skeið í gleymsku en hafa undanfarin ár hlotið verðskuldaða athygli á ný. Tónleikarnir hefjast á kraftmiklum forleik sem innblásinn er af „Biskupskletti“, einmana skeri við suðurodda Cornwall á Englandi þar sem ekki er pláss fyrir nema einn vita sem lýsir sæfarendum leið.

Athugið að í stað Rapsódíu fyrir hljómsveit og saxófón eftir Claude Debussy sem áður var á dagskrá tónleikanna verður leikin Fantasía fyrir saxófón og hljómsveit eftir Heitor Villa-Lobos.

Sækja tónleikaskrá