EN

Klassíkin okkar – Afmælisveisla

Í beinni sjónvarpsútsendingu á RÚV og Rás 1

Dagsetning Staðsetning Verð
4. sep. 2020 » 20:00 » Föstudagur Eldborg | Harpa Horfa

Í Klassíkinni okkar, sjónvarpstónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands og RÚV, verður boðið upp á sannkallaða tónlistarveislu. Í ár eru 70 ár liðin frá því að Sinfóníuhljómsveit Íslands hélt sína fyrstu tónleika og 90 ár frá því að Ríkisútvarpið tók til starfa. Þessar stofnanir hafa verið leiðandi í menningarlífi þjóðarinnar og leiðir þeirra hafa fléttast saman með ýmsum hætti. Klassísk tónlist hefur alla tíð verið áberandi í dagskrá Ríkisútvarpsins, sem hefur til dæmis hljóðritað og sent út nær alla tónleika Sinfóníuhljómsveitarinnar á Rás 1.

Litið verður yfir sögu Sinfóníunnar og Ríkisútvarpsins í tónum og tali. Flutt verða verk sem ómuðu oft á öldum ljósvakans á fyrstu árum útvarpsins, m.a. tónlist eftir starfsfólk Ríkisútvarpsins, Emil Thoroddsen, Ingibjörgu Þorbergs og Jón Múla Árnason. Frumfluttur verður nýr hátíðarforleikur eftir Hrafnkel Orra Egilsson sem byggður er á vinsælum dagskrárstefjum Rásar 1. Einnig leikur hljómsveitin tónlist eftir Bach, Mendelssohn og fleiri klassíska meistara. Sannkallað einvalalið söngvara, einleikara og kóra kemur fram á tónleikunum, meðal annars Emilíana Torrini, Sigríður Thorlacius og Dísella Lárusdóttir.

Ekki missa af glæsilegri og fjölbreyttri hátíðardagskrá þar sem rifjaðar verða upp stórar stundir í tónlistarsögu Ríkisútvarpsins og Sinfóníuhljómsveitar Íslands.

Tónleikarnir verða í beinni sjónvarpsútsendingu á RÚV og útvarpað á Rás 1.