EN

Ravel og Sibelius

Upphafstónleikar

Áskrift að tónleikaröð eða Regnbogakorti tryggir þér öruggt sæti á besta verðinu með 20% afslætti
Dagsetning Staðsetning Verð
12. sep. 2019 » 19:30 » Fimmtudagur Eldborg | Harpa 2.600 - 8.100 kr.

Á fyrstu áskriftartónleikum Sinfóníuhljómsveit Íslands hljómar glæsileg efnisskrá með franskri og norrænni tónlist. Þessi efnisskrá verður svo tekin aftur upp í febrúar 2020, en þá heldur hljómsveitin í tónleikaferð til Bretlands. Það er fyrrum aðalstjórnandi hljómsveitarinnar, Yan Pascal Tortelier, sem heldur um tónsprotann.

Franski píanósnillingurinn Jean-Efflam Bavouzet heillaði tónleikagesti upp úr skónum á Listahátíð í Reykjavík 2016, þegar hann lék píanókonsert Ravels með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Samkvæmt gagnrýnanda Fréttablaðsins tók hann „þvílík heljarstökk eftir hljómborðinu að maður saup hveljur“ og viðtökurnar voru eftir því. Nú kemur hann með 

hinn píanókonsert Ravels í farteskinu, þann sem tónskáldið samdi fyrir austurríska píanistann Paul Wittgenstein. Sá hafði misst hægri hönd í heimsstyrjöldinni fyrri en hélt ótrauður áfram tónleikahaldi og pantaði fjölda verka frá samtímatónskáldum.

Fyrsta sinfónía Sibeliusar er dásamlegt verk í rómantískum anda, samin undir sterkum áhrifum frá Tsjajkovskíj. Engu síðri er sviðsmúsík Bizets við leikritið Stúlkan frá Arles, sem sett var á svið í París árið 1872, þremur árum áður en óperan Carmen var frumsýnd. Leikritið þótti takast illa og fór af fjölunum eftir fáeinar sýningar. Bizet brá þá á það ráð að safna bestu þáttunum saman í syrpu sem náði miklum vinsældum, svo að nafn tónskáldsins var á hvers manns vörum í Parísarborg.

Sækja tónleikaskrá