EN

Stolin stef

Tryggðu þér besta verðið með 20% afslætti með því að kaupa miða á ferna tónleika eða fleiri – Regnbogakort
Dagsetning Staðsetning Verð
6. okt. 2022 » 20:00 » Fimmtudagur Eldborg | Harpa 2.700 - 7.700 kr.
Horfa

„Góðir listamenn herma eftir – stórfenglegir listamenn stela.“ Þessi orð, sem gjarnan eru höfð eftir Pablo Picasso, eiga víst ekki síður við í tónlistinni en myndlistinni. Þegar horft er yfir tónlistarsöguna finnast ófá meistaraverk sem tónskáld hafa smíðað úr stefjum annarra. Á þessum klukkustundarlöngu tónleikum í Grænu röðinni stjórnar Daníel Bjarnason litríkri efnisskrá með stolnum stefjum í forgrunni. Öll eiga stolnu stefin uppruna sinn á Ítalíu – landi sem veitir listamönnum úr öllum greinum stöðugan innblástur.

Ballettinn Pulcinella var frumraun Stravinskíjs í nýklassískum stíl og studdist hann við stef sem hann sagði vera eftir ítalska 18. aldar tónskáldið Giovanni Battista Pergolesi (þótt síðar hafi komið í ljós að málið var dálítið flóknara). Hér hljóma fjórir þættir úr ballettinum, sem fjalla um trúðinn og ólíkindatólið Pulcinella og kátlegar ástarraunir hans.

„Þetta er Ítalía! Og það sem ég hef ætíð séð fyrir mér sem mestu lífsgleði er nú orðið að veruleika sem ég nýt til hins ítrasta.“ Svo hljóðar upphaf bréfs sem hinn tuttugu og eins árs gamli Felix Mendelssohn skrifaði fjölskyldu sinni á ferðalagi sínu um Ítalíu árið 1830. Við heyrum hér lokaþáttinn úr 4. sinfóníunni, sem auknefnd er sú „ítalska“ en þar vitnar tónskáldið í dansa sem hann á að hafa heyrt á markaðstorgi í Napólí.

Síðasta verkið á efnisskrá tónleikanna er hinn leiftrandi píanókonsert Rakhmanínovs, Rapsódía um stef eftir Paganini. Aðalstef verksins er sótt í 24. og síðustu kaprísu ítalska tónskáldsins og fiðluleikarans Niccoló Paganini sem sagður var hafa selt sál sína skrattanum fyrir óviðjafnanlega tónlistarhæfileika. Verkið gerir ríkar kröfur til einleikarans, sem er hinn ungi Dmitry Shishkin. Shishkin er á hraðri leið upp á stjörnuhimin píanóheimsins, en hinn heimsþekkti píanóleikari, Evgeny Kissin, hefur meðal annars hælt honum fyrir „náttúrulega tónlistarlega fágun og listfengi“.

Tónleikarnir eru um klukkustundarlangir án hlés og er einnig sjónvarpað beint á RÚV.

Sækja tónleikaskrá