EN

Ung-Yrkja

Tónskáldastofa Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Tónverkamiðstöðvar

Dagsetning Staðsetning Verð
23. apr. 2021 » 12:00 - 13:00 » Föstudagur Eldborg | Harpa Aðgangur ókeypis

Sinfóníuhljómsveit Íslands hefur undanfarin fimm starfsár tekið þátt í Yrkju sem er samstarfsverkefni Íslenskrar tónverkamiðstöðvar og ýmissa tónlistarstofnana og tónlistarhópa, og þannig gefið ungum tónskáldum tækifæri til að kynnast hljómsveitinni í návígi. Ung-Yrkja er nýtt verkefni innan vébanda Yrkju og er sérstaklega löguð að ungum tónskáldum sem enn eru í háskólanámi í tónsmíðum. Í ár voru valin til þátttöku tónskáldin Ingibjörg Elsa Turchi, Katrín Helga Ólafsdóttir (K.óla) og Hjalti Nordal, en þau hafa starfað með hljómsveitinni síðastliðið ár og fengið þannig tækifæri til að þróa færni sína í að semja fyrir sinfóníuhljómsveit. Á þessum hádegistónleikum í Norðurljósum frumflytur hljómsveitin verk þeirra ásamt því að Elísabet Indra Ragnarsdóttir spjallar við tónskáldin um verkin og tilurð þeirra.

YRKJA miðar að því að búa tónskáld undir starf í faglegu umhverfi hjá hljómsveitum, hátíðum og öðrum listastofnunum. Anna Þorvaldsdóttir, staðartónskáld Sinfóníuhljómsveitar Íslands, hefur veg og vanda af tónskáldastofunni en auk hennar vinnur Bjarni Frímann Bjarnason, staðarhljómsveitarstjóri sveitarinnar, náið með höfundum.

Tónleikarnir eru unnir í samvinnu við Myrka músíkdaga en hátíðin verður haldin næst í janúar 2022. 

Takmarkað sætaframboð á tónleikana
Í samræmi við sóttvarnarlög er sætaframboð á tónleikana takmarkað við 100 tónleikagesti í hverju sóttvarnarhólfi. Í það minnsta eitt autt sæti er á milli allra pantana til að tryggja nálægðarmörk milli gesta. Gestum ber skylda að vera með grímu á tónleikunum sem eru um klukkustundarlangir án hlés. Við biðjum gesti að gæta vel að sóttvörnum og kynna sér leiðbeiningar til tónleikagesta áður en mætt er í Hörpu. Stöndum saman, við erum öll almannavarnir.