EN

Bach, Händel og Haydn

Tryggðu þér sæti á besta verðinu. Veldu ferna eða fleiri tónleika á Regnbogakort með 20% afslætti
Dagsetning Staðsetning Verð
24. okt. 2019 » 19:30 - 21:15 Eldborg | Harpa 2.600 - 8.100 kr.
Hlusta

Glæsileg tónlist frá 18. öld er í forgrunni á þessum tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands þar sem hljómar tónlist eftir meistarana Bach, Händel og Haydn, en auk þess verður fluttur einn fegursti kafli barokktónlistar, Passacaglia eftir franska tónskáldið Georg Muffat. Sinfónía Haydns nr. 102 er ein þeirra sem hann samdi fyrir tónleikahald í Lundúnum á sínum efri árum og er hún almennt talin í hópi bestu verka hans í þessari grein.

Konur fengu sjaldan tækifæri til stórra afreka sem tónskáld á 18. öld en hér hljóma sjaldheyrðir þættir úr óperum eftir tvær aðalskonur. María Antonía, prinsessa af Bæjaralandi, var bæði semballeikari og tónskáld og samdi tvær óperur. Hertogaynjan Anna Amalia ríkti í Weimar og gerði bæinn að iðandi miðstöð lista og menningar. Eina ópera hennar, Erwin und Elmire, er einmitt við texta eftir sjálfan Goethe sem var persónulegur vinur hennar.

Breski hljómsveitarstjórinn Matthew Halls er sérfræðingur í flutningi gamallar tónlistar. Hann hefur meðal annars stýrt glæsilegum flutningi á verkum eftir Bach, Händel og Mozart með Sinfóníuhljómsveit Íslands á undanförnum árum. Hann stjórnar einnig fremstu hljómsveitum heims og fékk fyrir skemmstu frábæra dóma fyrir flutning sinn á Messíasi ásamt Sinfóníuhljómsveitinni í Chicago.

Matthew Truscott, sem kemur fram sem einleikari og konsertmeistari á tónleikunum, er óvenju fjölhæfur fiðluleikari. Hann er konsertmeistari bæði í Mahler-kammersveitinni, þar sem leikið er á nútímahljóðfæri, og í upprunasveitinni Orchestra of the Age of Enlightenment sem notar hljóðfæri og leikmáta barokksins, auk þess sem hann er prófessor í fiðluleik við Royal Academy of Music í Lundúnum.

Sækja tónleikaskrá