EN

Aflýst: Mendelssohn og Beethoven

Tónleikunum hefur verið aflýst í ljósi herta samkomutakmarkana

Dagsetning Staðsetning Verð
9. apr. 2021 » 20:00 Eldborg | Harpa 2.400 – 5.700 kr.

Í ljósi herta samkomutakmarkana vegna útbreiðslu kórónuveirunnar hefur Sinfóníuhljómsveitar Íslands þurft að aflýsa tónleikunum.

„Ein besta fiðlufrumraun áratugarins“, sagði gagnrýnandi BBC Music Magazine nýverið um fyrsta geisladisk Johans Dalene, sænska fiðlusnillingsins sem aðeins er tvítugur en hefur þegar lagt tónlistarheiminn að fótum sér. Dalene hlaut fyrstu verðlaun í Carl Nielsen-fiðlukeppninni árið 2019, fékk í kjölfarið útgáfusamning hjá BIS og hefur Stradivarius-fiðlu til umráða. Hér gefst einstakt tækifæri til að sjá eitt af skærustu ungstirnum fiðluheimsins í dag flytja hinn sívinsæla og leikandi létta fiðlukonsert Mendelssohns með Sinfóníuhljómsveit Íslands.

Í áttundu sinfóníu sinni er Beethoven í toppformi; verkið er fullt af gáska og gleði. Hann taldi hana sjálfur með sínum bestu verkum, og hér heldur um tónsprotann hinn franski Ludovic Morlot sem hefur nýlokið störfum sem aðalstjórnandi Sinfóníuhljómsveitarinnar í Seattle. Undir hans stjórn hlaut sveitin fimm Grammy-verðlaun auk þess sem tímaritið Gramophone valdi hana hljómsveit ársins 2018.

Í bland við þýska tónlist frá 19. öld hljóma tvö bandarísk verk af nýstárlegri toga. Charles Ives var eitt óvenjulegasta tónskáld Bandaríkjanna á fyrstu áratugum 20. aldar. Hann starfaði sem tryggingasölumaður en eftir að vinnudegi lauk settist hann við að semja tónlist sem þótti svo framsækin að hún hljómaði í sumum tilvikum ekki fyrr en áratugum síðar. Þannig var því einmitt farið með þriðju sinfóníu hans, sem hann samdi árið 1904 en hljómaði fyrst árið 1946 og verður hér flutt í fyrsta sinn á Íslandi. Verkið er eins konar endurminning um guðsþjónustur sem Ives sótti í æsku, en hann fléttar saman gömlum sálmalögum með nýstárlegum hætti svo úr verður hin skemmtilegasta óreiða.

Caroline Shaw hlaut Pulitzer-verðlaunin í tónlist árið 2013, aðeins þrítug að aldri, og er yngsti viðtakandinn í 70 ára sögu þeirra. Hún hefur einkum vakið athygli fyrir frumlega tónlist fyrir söng- og kammerhópa. Verkið sem hér hljómar, millispil fyrir strengjasveit, er innblásið af menúetti eftir Haydn og kallast skemmtilega á við hefð Vínarklassíkur.

Takmarkað sætaframboð á tónleikana
Í samræmi við sóttvarnarlög er sætaframboð á tónleikana takmarkað við 200 tónleikagesti í fjórum sóttvarnarhólfum í Eldborg. Í það minnsta eitt autt sæti eru á milli allra pantana til að tryggja nálægðarmörk milli gesta. Gestum ber skylda að vera með grímu á tónleikunum. Við biðjum gesti að gæta vel að sóttvörnum og kynna sér leiðbeiningar til tónleikagesta áður en mætt er í Hörpu. Stöndum saman, við erum öll almannavarnir.