EN

Tónleikar & miðasala

október 2018

Maxi fer á fjöll 6. okt. 14:00 Eldborg | Harpa

Í nýju tónlistarævintýri um músina ástsælu, Maxímús Músíkús, er íslensk tónlist í forgrunni, allt frá þjóðlögum að samtímatónlist. Á lifandi og áhugaverðan hátt magnar tónlistin upp spennandi sögur af álfum og tröllum og upplifun Maxa af eldgosi í jöklaferð. Maxi ferðast ekki einn því að tvær gestamýs, Viva og Moto, sem komu í tösku erlends hljómsveitarstjóra, eru með í för. Maxi hefur því enn eina ferðina eignast nýja vini sem fylgja honum á vit ævintýranna. Hann gleðst yfir því hvað hann sé heppin mús, því að „þar sem tónlist er, þar eru allir glaðir.“

Bækurnar um Maxa hafa notið mikilla vinsælda, hlotið fjölda veiðurkenninga og komið út á mörgum tungumálum. Sögumaður í nýja ævintýrinu um Maxa er Unnur Eggertsdóttir en hún tók þátt í frumflutningi verksins undir stjórn Daníels Bjarnasonar í Los Angeles við mikið lof viðstaddra. Verndari verkefnisins er Vladimir Ashkenazy, aðalheiðursstjórnandi Sinfóníuhljómsveitar Íslands.

Verkið var pantað af Sinfóníuhljómsveit Íslands og Fílharmóníusveit Los Angeles sem frumflutti verkið á Reykjavíkur-hátíð sinni í Walt Disney-tónlistarhöllinni.

 • Efnisskrá

  Tryggvi M. Baldvinsson Hátíðargjall fyrir einstaka mús
  Jórunn Viðar úr Ólafi Liljurós
  Anna Þorvaldsdóttir úr Hrími
  Haukur Tómasson úr Storku
  Jón Ásgeirsson Tröllaslagur
  Gunnsteinn Ólafsson Þýtur í stráum
  Bára Grímsdóttir Laumufarþegarnir
  Daníel Bjarnason úr Collider
  Hallfríður Ólafsdóttir Lagið hans Maxa

 • Hljómsveitarstjóri

  Daníel Bjarnason

 • Sögumaður

  Unnur Eggertsdóttir

 • Saga og myndir

  Hallfríður Ólafsdóttir og
  Þórarinn Már Baldursson

Kaupa miða

Tsjajkovskíj og Shostakovitsj 11. okt. 19:30 Eldborg | Harpa

Japanska fiðlustjarnan Sayaka Shoji er Íslendingum að góðu kunn, en hún hefur tvívegis leikið á sumarhátíðinni Midsummer Music í Hörpu. Árið 1999 varð hún yngsti sigurvegari í sögu Paganini-keppninnar og þar með voru örlög hennar ráðin. Í dag ferðast hún um heiminn með Stradivarius-fiðluna sína og heillar áheyrendur hvert sem hún fer. Á þessum tónleikum leikur hún einn dáðasta fiðlukonsert allra tíma, þann sem Tsjajkovskíj samdi árið 1878 handa elskhuga sínum, fiðluleikaranum Josef Kutek. Ástríðuþrungnar hendingar í bland við stef sem minna á rússnesk þjóðlög gera konsertinn að ógleymanlegri upplifun.

Stjórnandi tónleikanna er hinn finnski Klaus Mäkelä, sem þrátt fyrir ungan aldur hefur sýnt að hann er einn eftirtektarverðasti hljómsveitarstjóri Norðurlanda um þessar mundir. Glitrandi forleikur Bernsteins að óperettunni Candide er viðeigandi upptaktur að tónleikunum enda er öld liðin frá fæðingu Bernsteins haustið 2018. Tíunda sinfónía Shostakovitsj er eitt hans vinsælasta verk enda hefur hún bæði að geyma ofsafengna dramatík og innilega ljóðrænu. Þetta var fyrsta sinfónían sem tónskáldið samdi eftir lát Stalíns vorið 1953 og margir heyra í verkinu uppgjör við þann örlagaríka tíma. Shostakovitsj á að hafa sagt að annar þátturinn væri „mynd af Stalín í tónum“, en hvað sem því líður er tónlistin einstaklega áhrifamikil. 

Kaupa miða

Lisiecki spilar Schumann 18. okt. 19:30 Eldborg | Harpa

 • Efnisskrá

  Olivier Messiaen Les offrandes oubliées
  Robert Schumann Píanókonsert
  Josef Suk Ævintýri (Pohádka)

 • Hljómsveitarstjóri

  Bertrand de Billy

 • Einleikari

  Jan Lisiecki

Tónleikakynning » 18:00
Kaupa miða

Nobu og Ashkenazy 25. okt. 19:30 Eldborg | Harpa

Í nóvember 2018 heldur Sinfóníuhljómsveit Íslands í tónleikaferð til Japans. Þetta verður fyrsta tónleikferð hljómsveitarinnar til Asíu. Alls heldur hljómsveitin 12 tónleika, meðal annars í Osaka, Nagoya og Hiroshima auk tvennra tónleika í Tókýó. Hljómsveitarstjóri verður Vladimir Ashkenazy en hann hefur notið gífurlegra vinsælda í Japan um áratuga skeið. 

Píanistinn Nobuyuki Tsujii er einnig stórstjarna í heimalandi sínu. Hann hefur verið blindur frá fæðingu en lætur það ekki aftra sér og lærir jafnvel erfiðustu verk píanóbókmenntanna eftir heyrn. Nobu hreppti gullverðlaun í Van Cliburn-píanókeppninni árið 2009 og hefur komið fram í öllum helstu tónleikahöllum heims; mynddiskur með tónleikum hans í Carnegie Hall árið 2012 var valinn diskur mánaðarins hjá hinu virta tímariti Gramophone.

Þessir tónleikar eru eins konar upphitun fyrir ferðalagið til Japans og er efnisskráin hin sama og flutt verður þar. Píanókonsert nr. 2 eftir Rakhmanínov er eitt vinsælasta tónverk allra tíma, ljóðrænn og þróttmikill og gefur japanska píanistanum Nobu óþrjótandi tækifæri til að sýna snilli sína.

Sinfónía nr. 2 eftir Sibelius er sömuleiðis mikið meistaraverk enda var það hún sem þeytti tónskáldinu upp á stjörnuhimin sígildrar tónlistar og sem Sibelius sjálfur kallaði „játningu sálarinnar“. Jökulljóð samdi Þorkell Sigurbjörnsson árið 1998 sérstaklega að beiðni Ashkenazys og mun það hljóma í Japansferð Sinfóníuhljómsveitarinnar til þess að minnast þess að Þorkell hefði orðið áttræður á árinu.

 • Efnisskrá

  Þorkell Sigurbjörnsson Jökulljóð
  Sergei Rakhmanínov Píanókonsert nr. 2
  Jean Sibelius Sinfónía nr. 2

 • Hljómsveitarstjóri

  Vladimir Ashkenazy

 • Einleikari

  Nobuyuki Tsujii

Tónleikakynning » 18:00
Uppselt

Engin grein fannst.