EN

Tónleikar & miðasala

janúar 2019

Tónskáldaspjall 31. jan. 18:30 Fimmtudagur Hörpuhorn | Harpa

  • Um viðburðinn

    Opið spjall á undan tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands á Myrkum músíkdögum þar sem hljómsveitin flytur m.a. verkið Metacosmos eftir Önnu.

  • Tónskáld

    Anna Þorvaldsdóttir

  • Umsjón

    Árni Heimir Ingólfsson

Sinfónían á Myrkum músíkdögum 31. jan. 19:30 Fimmtudagur Eldborg | Harpa

Á Myrkum músíkdögum 2019 verða blásturshljóðfæri í forgrunni. Flautukonsert Þuríðar Jónsdóttur frá árinu 2008 er meistaraleg tónsmíð þar sem hún blandar saman einleiksflautu, hljómsveit og krybbu- og engisprettuhljóðum. 

Nýr konsert Páls Ragnars Pálssonar fyrir flautu og fagott hljómar hér í fyrsta sinn, en verkið er sérstaklega samið fyrir Hallfríði Ólafsdóttur, 1. flautuleikara Sinfóníunnar. Ítalski flautuleikarinn Mario Caroli sérhæfir sig í flutningi nýrrar tónlistar og frumflutti konsert Þuríðar með miklum glæsibrag árið 2009. Eistneski fagottleikarinn Martin Kuuskmann hefur sömuleiðis vakið heimseftirtekt fyrir túlkun sína á nýrri tónlist.

Auk þess hljómar hér í fyrsta sinn á Íslandi nýtt hljómsveitarverk Önnu Þorvaldsdóttur, staðartónskáld Sinfóníuhljómsveitar Íslands, samið fyrir Fílharmóníuhljómsveitina í New York og frumflutt þar undir stjórn Esa-Pekka Salonen í apríl síðastliðnum. Það er til marks um stöðu Önnu í tónlistarheiminum að hin víðfræga Fílharmóníuhljómsveit Berlínar mun flytja þetta nýja verk fáeinum dögum áður en það hljómar á Íslandi í fyrsta sinn.

Upptaktur tónleikanna verður óvenjulegur, því að Ungsveit Sinfóníuhljómsveitar Íslands flytur hina einkar frumlegu tónsmíð Handsfree eftir breska tónskáldið Önnu Meredith, sem hún samdi fyrir Ungsveit Bretlandseyja. Verkið var frumflutt á Proms-tónlistarhátíðinni 2012 við frábærar undirtektir og hefur síðan farið sigurför um heiminn, enda með eindæmum skemmtilegt og nýstárlegt.