EN

Tónleikar & miðasala

maí 2019

Opin æfing 16. maí 10:00

Kaupa miða

Tónleikakynning 16. maí 18:00 Hörpuhorn

  • Umsjón

    Sigurður Ingvi Snorrason

Brahms og Bjarni Frímann 16. maí 19:30 Fimmtudagur Eldborg | Harpa

Tveir frábærir íslenskir strengjaleikarar leiða saman hesta sína á þessum tónleikum. Ari Þór Vilhjálmsson hefur hlotið mikið lof fyrir leik sinn og er nú leiðari 2. fiðlu Fílharmóníusveitarinnar í Helsinki, en Sigurgeir Agnarsson er leiðandi sellóleikari Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Sama leika þeir tilfinningaþrunginn tvíkonsert Brahms fyrir fiðlu og selló, síðasta hljómsveitarverk meistarans. Akademíski hátíðarforleikurinn er glaðvært skemmtistykki sem Brahms samdi í þakkarskyni eftir að honum hafði verið veitt heiðursdoktorsnafnbót við þýskan háskóla. Verkinu lýkur með stúdentasöngnum Gaudeamus igitur og á það vel við á vordögum þegar útskriftir eru á næsta leiti.

Louise Farrenc var framúrskarandi píanóleikari á 19. öld og starfaði í meira en þrjá áratugi sem prófessor í píanóleik við Tónlistarháskólann í París. Hún samdi fjölmörg píanó- og kammerverk, en einnig þrjár rómantískar sinfóníur sem þykja sérlega vel heppnaðar. Á síðustu árum hafa tónsmíðar Farrenc verið grafnar úr gleymsku og þykir ljóst að hún verðskuldar stóran sess í tónlistarsögunni. Í kjölfar tónleikanna verður sinfónía Farrenc hljóðrituð fyrir geisladisk á vegum breska hljómplötuforlagsins Chandos og er sérstakt ánægjuefni að Sinfóníuhljómsveit Íslands leggi sitt af mörkum til að kynna verk þessa merka tónskálds á alþjóðlegum vettvangi. Tónleikunum lýkur á spænskuskotinni fantasíu Chabriers þar sem hann fléttar saman sprellfjöruga spænska dansa með eftirminnilegum tilþrifum.