EN

9. desember 2002

Efnisskrá aðventutónleikanna

Sinfóníuhljómsveit Íslands 2002-2003 Johann Sebastian Bach: Jólaóratóría, BWV 248 Aðventutónleikar í Hallgrímskirkju fimmtudaginn 5. desember kl. 19.30 (I-III) föstudaginn 6. desember kl. 19.30 (IV-VI) laugardaginn 7. desember kl. 17.00 (I-III) Stjórnandi: Hörður Áskelsson Kór: Mótettukór Hallgrímkirkju Einsöngvarar: Marta Guðrún Halldórsdóttir sópran Monica Groop alt Gunnar Guðbjörnsson tenór Andreas Schmidt bassi Hörður Áskelsson Hörður Áskelsson fæddist á Akureyri og hóf tónlistarnám sjö ára gamall. Hann nam orgelleik og tónmenntakennslu við Tónlistarskólann í Reykjavík og lauk þaðan tónmenntakennaraprófi og burtfararprófi í orgelleik. Frá 1976 til 1981 stundaði Hörður framhaldsnám við Robert Schumann tónlistarháskólann í Düsseldorf og lauk þaðan A-prófi í kirkjutónlist með besta vitnisburði. Frá 1982 hefur Hörður verið organisti Hallgrímskirkju í Reykjavík og forgöngumaður í uppbyggingu listalífs þar. Hann stofnaði Listvinafélag og Mótettukór Hallgrímskirkju árið 1982, en það eru hornsteinar listastarfsemi kirkjunnar. Hann setti á laggirnar Kirkjulistahátíð, sem haldin hefur verið annað hvert ár síðan 1987, og orgeltónleikaröðina Sumarkvöld við orgelið árið 1993, en hún er haldin hvert sumar. Árið 1996 stofnaði hann kammerkórinn Schola cantorum. Hörður hefur hlotið margvíslegar viðurkenningar og með kórum sínum hefur hann tekið þátt í ýmsum tónlistarhátíðum og unnið til verðlauna í alþjóðlegum samkeppnum. Hann hefur stjórnað flutningi margra óratóría, m.a. með Sinfóníuhljómsveit Íslands, og frumflutt fjölda íslenskra tónverka. Tónlistarflutningur Harðar hefur verið hljóðritaður af útvarpi og sjónvarpi og gefinn út á mörgum hljómdiskum. Hörður Áskelsson hefur kennt orgelleik og kórstjórn við Tónskóla Þjóðkirkjunnar og á árunum 1985-95 var hann lektor í litúrgískum söngfræðum við guðfræðideild Háskóla Íslands. Hörður var tónlistarstjóri Kristnihátíðar á Þingvöllum í júlí árið 2000. Fyrr í ár fékk hann bæði Íslensku tónlistarverðlaunin og Menningarverðlaun DV fyrir túlkun sína á Passíu eftir Hafliða Hallgrímsson og fleiri stórverkum árið 2001. Hann var einnig útnefndur Borgarlistamaður Reykjavíkur 2002. Mótettukór Hallgrímskirkju Mótettukór Hallgrímskirkju var stofnaður af Herði Áskelssyni haustið 1982 og heldur því upp á tuttugu ára afmæli sitt í ár. Félagar í kórnum eru um sextíu talsins. Kórinn flytur aðallega kirkjuleg kórverk án undirleiks frá öllum tímabilum tónlistarsögunnar, en leggur sérstaka áherslu á tónlist tengda séra Hallgrími Péturssyni og sálmum hans. Auk þess flytur kórinn stærri kórverk, ýmist með hljómsveit eða orgeli. Má þar nefna óratóríur og passíur eftir Bach, Händel og Mendelssohn, en líka nýrri verk eftir Maurice Duruflé, Frank Martin og Arvo Pärt. Þá hefur kórinn frumflutt fjölda íslenskra tónverka, m.a. eftir Hafliða Hallgrímsson, John A. Speight, Jón Hlöðver Áskelsson og Þorkel Sigurbjörnsson. Mótettukórinn syngur við helgiathafnir í Hallgrímskirkju og heldur árlega jóla- og vortónleika. Kórinn hefur farið í fjölmargar tónleikaferðir, m.a. sumarið 2001 í tveggja vikna ferð stranda á milli í Kanada. Kórinn hefur tekið þátt í fjölda tónlistarhátíða, m.a. Listahátíðinni í Bergen, Wiener Festwochen og norrænum kirkjutónlistarmótum í Osló, Reykjavík og Gautaborg. Kórinn vann til verðlauna í alþjóðlegu kórakeppninni í Cork á Írlandi árið 1996. Þá hefur kórinn sungið á vegum Listahátíðar í Reykjavík og á öllum Kirkjulistahátíðum í Hallgrímskirkju. Mótettukórinn hefur sungið inn á marga geisladiska og fékk m.a. mikið lof erlendra gagnrýnenda bæði austan hafs og vestan fyrir disk með sálumessu Duruflés. Þá hafa einnig komið út geisladiskar hjá BIS í Svíþjóð þar sem kórinn syngur verk Jóns Leifs með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Fyrir skemmstu sendi Edda – miðlun og útgáfa frá sér geisladiskinn Lýs, milda stjarna, þar sem Mótettukór Hallgrímskirkju syngur jóla- og aðventulög ásamt Jóhanni Friðgeir Valdimarssyni tenór. Þeim sem vilja kynnast sögu og framtíðaráætlunum kórsins er bent á Vefsetur Mótettukórs Hallgrímskirkju (motettukor.is), sem var opnað 1. des. sl. Marta Guðrún Halldórsdóttir Marta Guðrún Halldórsdóttir lauk einsöngvaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík og stundaði framhaldsnám við Hochschule für Musik í München um fimm ára skeið. Helstu kennarar hennar voru Sieglinde Kahmann og Daphne Evangelatos. Marta Guðrún hefur komið fram á listahátíðum hér heima og erlendis. Má þar nefna Sumartónleika í Skálholti, Listahátíð í Reykjavík, Vorhátíðina í Búdapest og dagskrá þriggja af menningarborgum Evrópu árið 2000, Reykjavíkur, Prag og Bologna. Hún er í fremstu röð túlkenda samtímatónlistar hér á landi og hefur frumflutt fjölda íslenskra tónverka. Einnig hefur hún lagt rækt við flutning barokk- og endurreisnartónlistar. Hún hefur starfað með ýmsum kammerhópum, kórum og hljómsveitum, s.s. Caput, Contrasti, Schola cantorum, Hljómeyki, Kammersveit Reykjavíkur, Mótettukór Hallgrímskirkju og Sinfóníuhljómsveit Íslands. Hún hefur gert fjölda hljóðritana og nú fyrir jólin koma út tvö ný verk á geisladiskum þar sem hún er í hópi einsöngvara, Tíminn og vatnið eftir Atla Heimi Sveinsson í flutningi Kammersveitar Reykjavíkur og Skálholtsmessa eftir Hróðmar Inga Sigurbjörnsson með Caput. Marta Guðrún hefur farið með aðalhlutverk í óperum og söngleikjum bæði í Þjóðleikhúsinu og hjá Íslensku óperunni. Monica Groop Monica Groop frá Finnlandi nýtur mikillar hylli í tónlistarheiminum, hvort sem hún syngur á stærstu óperusviðum veraldar, flytur ljóðasöngva á tónleikum eða kemur fram með fremstu barokkhljómsveitum heims. Hún vakti athygli í Niflungahring Wagners í Covent Garden undir stjórn Bernards Haitinks árið 1991 og hefur síðan m.a. sungið í Brúðkaupi Fígarós og Rósariddaranum í Konunglegu óperunni. Aðrir hápunktar á óperuferli hennar eru þátttaka í uppsetningu Peters Sellars á Pelléas og Mélisande með Los Angeles fílharmóníunni undir stjórn Esa-Pekka Salonens og tónleikaferð til Japans þar sem hún söng hlutverk Dorabellu í Cosí fan tutte undir stjórn Seijis Ozawas. Meðal framtíðarverkefna hennar á óperusviðinu er hlutverk í óperunni L’Amour de Loin eftir löndu hennar Kaaju Saariaho, en hún verður sýnd í Bandaríkjunum og Frakklandi og einnig gefin út á DVD. Auk þess að syngja með barokkhljómsveitum á borð við Freiburger Barockorchester og Academy of Ancient Music kemur Monica reglulega fram m.a. með sinfóníuhljómsveitunum í Boston, Chicago og San Franscisco, Gewandhaushljómsveitinni í Leipzig, Ríkishljómsveitinni í Dresden og Þjóðarhljómsveit Frakklands undir stjórn manna eins og Giulini, Eschenbach, Chung og Neeme Järvi. Meðal fjölmargra hljóðritana sem finna má með Monicu Groop má nefna Don Giovanni meðLundúnafílharmóníunni (Decca, Solti), Cosí fan tutte og Brúðkaup Fígarós (Accent, Kuijken) og Ottone in Villa eftir Händel (Chandos, Hickox). Monica hefur tvívegis áður komið fram sem einsöngvari á Bachtónleikum með Mótettukór Hallgrímskirkju, í H-moll messunni árið 1999 og í Jólaóratóriunni árið 1995. Gunnar Guðbjörnsson Gunnar Guðbjörnsson tenór stundaði söngnám hjá Sigurði Demetz á Íslandi, en einnig í Þýskalandi og auk þess sótti hann söngtíma hjá Nicolai Gedda. Á árunum 1990-91 var hann meðlimur í National Opera Studio í London. Gunnar þreytti frumraun sína á óperusviðinu hjá Íslensku óperunni árið 1988 í hlutverki Don Ottavios í óperunni Don Giovanni eftir Mozart. Að loknu námi réðst hann sem lýrískur tenór að Ríkisóperunni í Wiesbaden en þar var hann til ársins 1995. Á árunum 1995-97 var hann fyrsti lýríski tenór Þjóðaróperunnar í Lyon í Frakklandi. Gunnar hefur einnig sungið í fjölda annarra óperuhúsa og má þar nefna Grand Theatre í Genf, óperurnar í Lissabon, Marseille, Toulouse, Lille, Opéra National í París (Bastille), Frankfurter Oper, Staatsoper Hamburg, Nationaltheater í München, Kölner Oper, Deutsche Staatsoper og Deutsche Oper í Berlín og Wiener Staatsoper. Hann hefur komið fram á tónleikum víða í Evrópu, en einnig í Bandaríkjunum og Asíu. Hlutverkaskrá Gunnars hefur að geyma öll helstu aðalhlutverkin í óperum Mozarts, en einnig Nemorino í Ástardrykknum, Fenton í Falstaff, Lensky í Eugene Onegin, Quint í óperu Brittens Turn of the Screw, Almaviva í Rakaranum í Sevilla, Stýrimanninn í Hollendingnum fljúgandi og Rodolfo í La Bohème. Framundan hjá Gunnari er m.a. frumraun hans í óperuhúsi á Ítalíu, en hann syngur í Töfraflautu Mozarts í Óperunni í Bologna í febrúar og mars 2003. Andreas Schmidt Andreas Schmidt fæddist árið 1960 í Düsseldorf í Þýskalandi og nam píanó- og orgelleik auk hljómsveitarstjórnar áður en hann snéri sér að söngnum. Kennarar hans voru Ingeborg Reichelt í Düsseldorf og Dietrich Fischer-Dieskau í Berlín. Hann bar sigur úr býtum í “Deutscher Musikwettbewerb” árið 1983 og í kjölfar þess hófst óperuferill hans hjá Deutsche Oper í Berlín. Síðan hefur hann sungið stór hlutverk í óperum eftir m.a. Mozart, Verdi, Puccini og Wagner í öllum helstu óperuhúsum heims. Hann hefur einnig tekið þátt í frumsýningum á óperum eftir m.a. Hans Werner Henze og Wolfgang Rihm. Á tónleikasviðinu hefur hann komið fram með flestum þekktustu sinfóníuhljómsveitum heims undir stjórn hljómsveitarstjóra á borð við Abbado, Ashkenazy, Barenboim, Bernstein, Gardiner, Harnoncourt, Levine, Muti, Ozawa og Solti. Andreas Schmidt er í hópi virtustu ljóðasöngvara heims. Undanfarin ár hefur hann unnið náið með píanistanum Rudolf Jansen, en meðal annarra meðleikara hans eru Vladimir Ashkenazy, Daniel Barenboim, Jörg Demus og Roger Vignoles. Söngur Andreasar hljómar á yfir 100 geisladiskum frá fyrirtækjum á borð við BMG, Philips, Decca, Teldec, Sony, EMI og Hänssler. Andreas Schmidt hefur oft áður sungið á Íslandi. Hann kom hingað fyrst ungur og óþekktur haustið 1982 og flutti þá einsöngskantötur eftir Bach. Við það tækifæri átti hann þátt í stofnun Mótettukórs Hallgrímskirkju, en kórinn var settur saman til að syngja lokasálm í einni af kantötunum. Andreas syngur titilhlutverkið í óratóríunni Elía eftir Mendelssohn sem flutt verður á Kirkjulistahátíð í Hallgrímskirkju í lok maí á næsta ári af Mótettukórnum og Sinfóníuhljómsveit Íslands. Jólaóratórían– nokkur aðfararorð Eldsnemma að morgni jóladags árið 1734 streyma íbúar í Leipzig í Saxlandi inn í Nikulásarkirkjuna, aðra af aðalkirkjum borgarinnar, til morgunmessu. Klukkan er ekki nema sjö, en þeir allra trúræknustu og morgunbröttustu hafa þegar tekið þátt í morguntíðum tveimur klukkustundum fyrr. Framundan er hátíðarmessa sem vafalaust mun standa yfir til hátt í ellefu. Eigum við ekki að ætla að það sé nokkuð kalt í veðri og líklega er ekki mikið hlýrra inni í kirkjunni. Það er enn kolniðamyrkur og kirkjan því lýst upp með miklum fjölda kertaljósa. Háir sem lágir, ungir sem aldnir eru vafalaust í hátíðarskapi, en eitthvað segir manni að ekki séu allir búnir að nudda stírurnar úr augunum. Messan hefst á sálminum Puer natus in Bethlehem (sem Íslendingar hafa um aldir sungið sem Oss barn er fætt í Betlehem og hefur vafalaust verið kirjað í ófáum kirkjum þessi sömu jól hér á landi). Síðan hljómar orgelforspil og þar á eftir mótetta í flutningi kórsins. Söngvararnir eru sumir hverjir ekki ýkja háir í loftinu, enda þeir yngstu ekki nema 9-10 ára. Allir eru þeir nemendur í Tómasarskólanum, sem sér kirkjum borgarinnar fyrir kórsöngvurum. Hljómsveitin, sem brátt mun láta til sín taka, er líka skipuð skólastrákum og stúdentum, fyrir utan þá fáu atvinnutónlistarmenn sem eru í þjónustu borgar og kirkju. Nú er klukkan hálf-átta og komið að þeim lið guðsþjónustunnar sem mest reynir á hina óhörðnuðu ungu tónlistarmenn: kantata jóladags er í uppsiglingu. Skyndilega dynur í pákum, flautur svara vakningarkallinu, óbó bætast í hópinn, svo strengir og loks gjallandi trompetar. Ef einhverjum kirkjugestinum hefur tekist að dorma fram að þessari stund bindur hinn þróttmikli hljómsveitarinngangur vafalaust enda á blundinn. Síðan á fyrsta aðventusunnudegi hefur enginn hljóðfæraleikur hljómað í kirkjunni og það magnar enn áhrif þessarar glæsilegu innkomu. Brátt bætist kórinn í leikinn: “Jauchzet! Frohlocket! Auf, preiset die Tage,” syngja strákarnir, “Fagnið! Gleðjist! Og lofprísið daginn.” Jólaóratórían er hafin! Johann Sebastian Bach er á fimmtugasta aldursári og búinn að gegna stöðu Tómasarkantors og tónlistarstjóra borgarinnar í rúman áratug. Á þessum tíma hefur hann samið kantötur í hundraðatali fyrir alla helgidaga kirkjuársins og hann á því úr drjúgu safni að moða þegar hann velur tónlist fyrir messurnar. Nú fannst honum þó vera kominn tími til að brydda upp á nýjung í helgihaldinu. Kirkjugestir urðu varir við það um leið og þeir komu til kirkju og fengu afhentan bækling með söngtexta í sex hlutum, einum fyrir hvern messudag hátíðanna, þar sem atburðir jólanna eru raktir. Það voru reyndar fordæmi fyrir slíkum “framhaldssögum” í kirkjutónlistinni, bæði í Leipzig og eins hjá Dietrich Buxtehude, lærimeistara Bachs í Lübeck, en aldrei hefur jólasagan verið sögð á jafn tignarlega margslunginn hátt í tónum og í þessu sexskipta verki, sem höfundurinn kallar Weihnachts-Oratorium. Hinir prúðbúnu Leipzigbúar sem sitja í hörðum trébekkjum Nikulásarkirkju þennan morgun myndu varla trúa því að 268 árum síðar sitji prúðbúnir tónleikagestir á heldur þægilegri kirkjubekkjum á Íslandi að hlusta á þessa sömu tónlist. Jólaóratóría Bachs er sem sé sett saman úr sex hlutum eða kantötum sem samdar voru með sérstakan flutningsdag í huga og inniheldur hver þeirra sinn hluta frásagnarinnar af fæðingu Krists. Fyrstu þrír hlutarnir eru ætlaðir til flutnings á fyrstu þremur jóladögunum (stórhátíðir kirkjuársins voru þríheilagar, eins og sagt er, og var messað þrjá daga í röð) og mynda afmarkaða heild. Þeir geyma hið eiginlega jólaguðspjall, þar sem sagt er frá atburðum jólanæturinnar. Fjórði hlutinn var skrifaður fyrir nýársdag og hverfist um nafn frelsarans, enda segir frá skírn og umskurði Krists í guðspjalli fyrsta dags ársins. Í síðustu tveimur hlutunum, fyrir sunnudag eftir nýár og þrettánda dag jóla, er augum beint að vitringunum frá Austurlöndum og hinum grimma Heródesi. Þótt Bach hafi gætt þess að hver hluti óratóríunnar gæti staðið sem sjálfstæð eining, eins og hver önnur kantata sem hann flutti í messum, lagði hann einnig mikla áherslu á að búa verkinu sterkt heildarform. Þar skiptir tóntegundaval og hljóðfæraskipan hvað mestu máli. Grunntóntegund Jólaóratóríunnar er D-dúr, sem kom eiginlega af sjálfu sér, þar eð það er þægilegasta tóntegundin fyrir náttúrutrompeta (frumstæðari fyrirrennari nútímatrompets án ventla), en þeir voru ómissandi þáttur gleðiríkrar hátíðartónlistar. Bach kallar á þrjá trompeta og pákur í 1., 3. og 6. hluta óratóriunnar og rammar þannig inn bæði fyrri hluta verksins og verkið í heild. Annar hlutinn er í G-dúr og sá fimmti í A-dúr, en báðar þessar tóntegundir eru mjög skyldar D-dúr (4. og 5. sæti tónstigans). Fjórði hlutinn hefur hinsvegar sérstöðu, en þar bregður Bach sér í F-dúr og fyrirskrifar tvö horn, sem ekki koma fyrir annars staðar í óratóríunni. Þetta er í samræmi við innihald kantötunnar (nafngift Jesú), sem stendur eilítið til hliðar við umfjöllunarefni hinna hlutanna. Því er líkt farið með Jólaóratóríuna og með kantötur og passíur Bachs, að söngtexti verksins er af þrennu tagi: biblíuvers, sálmerindi og frumsaminn texti. Söguþráður óratóríunnar er tekinn orðréttur úr Nýja testamentinu og það eru þeir Lúkas og Matteus sem segja frá. Sálmerindin sem koma fyrir í verkinu eru öll úr sálmum sem ortir voru um miðja sautjándu öld, nema hvað sígildir jólasálmar Marteins Lúters, Vom Himmel hoch, da komm ich her og Gelobet seist du, Jesu Christ, fá að fljóta með. Ekki er vitað með vissu hver það var sem skrifaði frumsaminn texta Jólaóratóríunnar, sem sunginn er í resítatívum (sönglesum), aríum og kórum, en öll bönd berast að nánum samstarfsmanni Bachs að nafni Christian Friedrich Henrici, eða Picander, eins og hann kaus að kalla sig þegar hann var í skáldaham. Þar kemur ekki síst til sú staðreynd að hann var einkar laginn við einmitt þá tegund skáldskapar sem Bach þurfti á að halda í Jólaóratóríunni, það er að segja að semja nýjan texta í stað gamals. Megnið af aríum og kórum Jólaóratóríunnar hafði nefnilega hljómað áður í öðrum verkum við annan texta. Meira um það hér aðeins neðar, en athugum fyrst þær formgerðir sem á vegi okkar verða í Jólaóratóríunni. Fimm af kantötunum sex hefjast á glæsilegum upphafskór, þar sem hljómsveitin leikur forspil og millispil, skipuð öllum þeim hljóðfærum sem koma fyrir í hverri kantötu fyrir sig. Þessir kórkaflar eru óviðjafnanlegir að allri gerð og gefa skýran og markvissan tón fyrir það sem koma skal. Annar hluti óratóríunnar hefst hinsvegar á eina hljómsveitarkafla verksins, yndislegu hjarðljóði, sem kynnir sögusvið þeirrar kantötu, þ.e. Betlehemsvelli, þar sem hirðar munu brátt fá óvænta heimsókn af himnum ofan. Albert Schweitzer heyrði fyrir sér samtal engla og hirða í víxl- og samleik strengja og flauta annarsvegar og óbóa hinsvegar í þessum fræga kafla. Kórinn gegnir margslungnu hlutverki í Jólaóratóríunni eins og í passíum Bachs. Auk þess að slá tóninn í upphafi þurfa kórsöngvararnir að bregða sér í gervi ýmissa hópa sem fyrir koma í frásögninni í svokölluðum turba kórum. Undir lok annars hlutans spretta þannig fram vængir á þeim og þeir syngja í orðastað himneskra hersveita (Ehre sei Gott in der Höhe). Seinna í verkinu verða þeir að setja sig í spor hirðanna og enn síðar eru þeir vitringar að leita að hinum nýfædda konungi Gyðinga. Það fellur einnig í hlut kórsins að syngja sálma eða kórala óratóríunnar, vel á annan tug kafla. Bach raddsetur þessi einföldu gömlu sálmalög með mikilli tilfinningu fyrir inntaki textans. Í lok fjögurra af kantötunum er að finna íburðarmeiri kórala, þar sem hljómsveitin fær frjálst hlutverk og leikur millispil. Veigamestur þeirra er stórkostlegur lokakafli óratóríunnar. Þótt kóralarnir láti margir hverjir ekki mikið yfir sér í samanburði við aðra kafla verksins eru þeir afar mikilvægir og alveg ómissandi hlekkir í keðjunni. Það er í þeim sem rödd safnaðarins hljómar. Ekki er vitað hvort það var venja á tímum Bachs að kirkjugestir tækju undir með kórnum í sálmasöngnum í kirkjutónverkum, en óhætt er að fullyrða að jafnvel þótt þeir hafi ekki kirjað fullum hálsi þá hafi þeir í það minnsta sungið með í hjarta sínu, svo þekktir voru þessir sálmar hverju mannsbarni. Snúum okkur að hlutverkum einsöngvaranna. Texti guðspjallamannsins er samkvæmt hefðinni sunginn af tenór í resítatívum þar sem einungis basso continuo eða fylgibassi (selló/kontrabassi/fagott og orgel) leikur með söngvaranum. Slíkir kaflar eru nefndir secco eða “þurr” resítatív. Önnur söngles óratóríunnar eru af svokallaðri accompagnato gerð, þar sem hin ýmsu hljóðfæri styðja framsögn söngvarans. Bach notast við þessar tvær gerðir sönglesa til að varpa ljósi á eðlismun texta þeirra. Framlag guðspjallamannsins færir frásögnina áfram, en sönglesin með frumsömdum texta eru áningarstaðir, þar sem söngvararnir staldra við, velta atburðum sögunnar fyrir sér og bregðast við þeim. Aríur Jólaóratóríunnar, tólf að tölu, þar á meðal dúett og tersett, skiptast jafnt á milli kantatanna og eru flestar í ítölskum þrískiptum da capo stíl, þar sem fyrsti hluti kaflans er endurtekinn að miðhlutanum loknum (þá er sem sé byrjað aftur frá byrjun, da capo). Frjálsu resítatívin eru einhvers konar útlegging á guðspjallinu, eða örpredikanir, og niðurstaða og inntak þeirra verður oft kveikja umfjöllunarefnis aríanna. Hinn kristni einstaklingur hugleiðir stöðu sína út frá boðskap guðspjallsins. Hér eru hljóðfærin ekki einungis notuð til stuðnings eins og í accompagnato sönglesunum, heldur leika þau í raun jafn stórar rullur og söngvararnir og eru í stöðugu samspili við þá. Hér að ofan var að því ýjað að tónlistin í Jólaóratóríunni hefði ekki verið alveg ný af nálinni þegar hún hljómaði í Leipzig jólin 1734-35. Staðreyndin er nefnilega sú að flestir kórar verksins og allar aríur að einni undanskilinni höfðu hljómað í öðrum verkum eftir Bach, og það sem meira er, rúmur helmingur þeirra átti rætur sínar að rekja til veraldlegra kantata. Ef til vill hefur suma kirkjugesti í fyrrnefndri messu í Nikulásarkirkjunni á jóladag 1734 rámað í að hafa áður heyrt hinn glæsilega upphafskór Jólaóratóríunnar í kantötu sem flutt var þann 8. desember 1733 í tilefni af afmælisdegi Maríu Jósefu, kjörfurstafrúar Saxlands og drottningar Póllands. Líklega hafa þeir þó ekki kippt sér mikið upp við það, enda var alvanalegt að tónskáld nýttu verk sín og jafnvel annarra, ef því var að skipta, í ýmsum gerðum og við fleiri en eitt tækifæri. Bach var á þessum tíma á höttunum eftir viðurkenningu og stuðningi kjörfurstans, Friðriks Ágústs II (sem hét Ágúst III þegar hann setti á sig konungskórónu Póllands) og taldi að hirðtitill myndi styrkja hann í stöðugri baráttu hans við yfirvöld í Leipzig varðandi aðbúnað tónlistarinnar í borginni. Hann lét því fáa merkisdaga í lífi kjörfurstafjölskyldunnar fram hjá sér fara og var iðinn við að hylla hana með tónlist. Alls má rekja ellefu kafla í Jólaóratóriunni til þriggja kantata sem urðu til af þessu tilefni (BWV 213-215). Aðrir endurunnir kaflar verksins eiga sér fyrirmyndir sem ekki hafa varðveist. Það kann að virðast furðulegt að upphafin og hátíðleg tónlist Jólaóratóríunnar skuli að hluta eiga upptök sín í veraldlegri tónlist sem samin var sem liður í harðvítugri valdabaráttu. Sumum þykir þessi tilhugsun óþægileg og þeirri kenningu hefur verið varpað fram að Bach hafi verið búinn að ákveða að semja Jólaóratóríuna og hafi haft hana í huga þegar hyllingarkantöturnar urðu til. Það er auðvitað ein leið til að skýra uppsprettu innblásinna hugmynda í þessum glæsilegu verkum, en kann líka að skyggja á þá staðreynd að Johann Sebastian Bach lagði alla kunnáttu sína, metnað og andagift í hvert einasta verk sem hann setti á blað, hvort sem um var að ræða veraldlega eða andlega tónlist, stórt verk eða lítið. Tónlistarhæfileikar voru í hans huga guðsgjöf sem bar að fara vel með. Það vantar ekki hástemmt lofið kjörfurstanum og hans fólki til handa í texta hyllingarkantatanna, en þegar handrit Bachs eru gaumgæfð má sjá skammstöfunina JJ (Jesu juva; Jesú, hjálpa þú mér) efst á blaði og í lok þeirra hefur Bach, líkt og í mörgum öðrum handritum, skrifað SDG, sem útleggst Soli Deo Gloria; Guð einum sé dýrð. Halldór Hauksson