EN

6. febrúar 2006

Fjögur íslensk hljómsveitarverk á Myrkum músíkdögum

Tónlistarhátíðin Myrkir músíkdagar var fyrst haldin í Reykjavík árið 1980 og fagnar því 26 ára afmæli sínu á árinu 2006. Hátíðin er tileinkuð nýrri íslenskri tónlist og eru tugir íslenskra tónverka frumfluttir þar hverju sinni. Á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands á Myrkum músíkdögum hefur í gegnum tíðina skapast mikilvægur vettvangur fyrir nýja íslenska hljómsveitartónlist. Að þessu sinni eru það þeir Haraldur Vignir Sveinbjörnsson, Þorkell Sigurbjörnsson, Eiríkur Árni Sigtryggsson og Þorsteinn Hauksson sem eiga verk á tónleikunum sem verða fimmtudaginn 9. febrúar. Rétt er að minna á sérstakt tvennutilboð á þessa tónleika og tónleika ungra einleikara sem fara fram á laugardag. +++ Um verkin: Haraldur Vignir Sveinbjörnsson ::: Sjö byltur svefnleysingjans Um verkið Sjö byltur svefnleysingjans segir höfundurinn að það hafi að mestu orðið til á andvökunóttum veturinn 2002-2003 en á þeim tíma bjó hann í Lundi í Svíþjóð. „Sjö tiltölulega stutt örstef urðu til í svefnrofunum og rötuðu á blað.“ Verkið var frumflutt opinberlega af Sinfóníuhljómsveit Helsingjaborgar fyrir fullu húsi snemma árs 2004 eftir að Haraldur hlaut verðlaunin „Tónskáld morgundagsins“ hjá sömu sveit. Haraldur var einnig tilnefndur til Íslensku tónlistarverðlaunanna 2004 fyrir „bylturnar“. Þorkell Sigurbjörnsson ::: Þrenjar „Það var snemma árs 1984, sem Einar Grétar Sveinbjörnsson, konsertmeistari í Malmö, bað mig um viðráðanlegan, lítinn konsert fyrir fiðlu, selló og píanó og Sinfóníuhljómsveit áhugamanna í Lundi. Það var auðsótt mál. Ég þekkti þá Einar, cellistann, Guido Vecchi og píanistann, Peter Ernst, af góðu einu. Þeir frumfluttu verkið síðsumars 1984 með áðurnefndri hljómsveit í Lundi undir stjórn Kjell- Åkes Bjärmings. Margir íslenskir hljóðfæraleikarar kannast við nafn Bjärmings, sem stýrði árum saman sumarnámskeiðum fyrir unga norræna tónlistarmenn í Lundi, með fjölda íslenskra þátttakenda. Ég kallaði verkið Þrenjar. Það þýðir þríeggjað sverð. En því fylgja engin skilyrði. Þríeggjað sverð má vera eins beitt eða lúið eins og verkast vill.“ Eiríkur Árni Sigtryggsson ::: Sjöstirni „Ég var eitthvað að hugsa um himingeiminn og okkur hér á jörðu. Það er allt auðvitað óskiljanlegt. Sjöstirnið kom upp í hugann, og þar með talan 7. Sjöundin, þetta spennandi tónbil, sem breytist í tvíund sé því snúið við. Verkið byggir á sjöundinni og sjöundarhljómnum í sínum mörgu myndum. Tónlistin og himingeimurinn þrungin sömu óskiljanlegu dulúðinni.“ Þorsteinn Hauksson ::: Sinfónía eitt Þorsteinn Hauksson hóf píanónám tíu ára gamall hjá Carl Billich en innritaðist síðan í Tónlistarskólann í Reykjavík og lauk árið 1974 einleikaraprófi á píanó, undir handleiðslu Rögnvalds Sigurjónssonar píanóleikara. Ásamt píanónáminu sótti Þorsteinn tíma í ýmsum fræðigreinum. Tónsmíðum kynntist hann í svokölluðum föndurtímum Þorkels Sigurbjörnssonar í kringum 1970, en í þeim tímum kynnti Þorkell nemendum sínum allt það nýjasta sem var að gerast í nútímatónlist. Urðu þessir tímar nemendum hvatning til eigin tónsköpunar. Hljómsveitarstjóri á tónleikunum er Rumon Gamba.