6. mars 2006
Jón Nordal áttræður í dag 6. mars. Fimm einleikarar á afmælistónleikum
Jón Nordal fagnar áttatíu ára afmæli sínu í dag og eru honum færðar árnaðaróskir frá Sinfóníuhljómsveitinni á þessum tímamótum. Í tilefni afmælisins verður efnt til heilmikillar konsertveislu á fimmtudaginn í Háskólabíói, þar sem fimm einleikarar koma fram til að heiðra tónskáldið. Þetta eru þau Víkingur Ólafsson, Guðný Guðmundsdóttir, Ásdís Valdimarsdóttir, Einar Jóhannesson og Erling Blöndal Bengtsson. Stjórnandi á tónleikunum er Petri Sakari. Árni Heimir Ingólfsson hefur þetta að segja um Jón í efnisskrá tónleikanna: Það er tæpast ofsögum sagt – og ekki á neinn hallað – þótt því sé haldið fram að Jón Nordal sé eitt mesta tónskáld sem Ísland hefur átt. +++Í Jóni Nordal kristallast straumar og stefnur 20. aldarinnar, ævi hans og tónsmíðaferill er samofinn tónlistarsögu okkar og þróun. Hann var einn af forvígismönnum módernismans á Íslandi gegnum Musica Nova – hann var fyrsti formaður félagsskaparins 1959 – og stýrði æðstu stigum tónlistarkennslu á Íslandi með innsæi sem ekki öllum er gefið, þegar hann gegndi stöðu skólastjóra Tónlistarskólans í Reykjavík 1959-92. Hann hefur sameinað hið „þjóðlega“ og „alþjóðlega“ í tónlistinni, háð glímuna við stílinn og að lokum fundið sitt eigið sérstæða tónmál sem þekkist á örfáum töktum. Tónlist Jóns er innhverf og djúphugul. Hún einkennist af hægfara tónferli þar sem þykk og litrík hljómauppbygging er allsráðandi. Hljómarnir eru uppistaðan, litríkir og dulúðarfullir, og búa yfir innri spennu sem öðlast lausn á hárréttum stöðum. Í tónlist Jóns er engu ofaukið. Hún er fyrst og fremst persónuleg tjáning, laus við allar fánýtar brellur og innantóma tískustrauma. Og hún er íslensk. Hún stendur föstum rótum í íslenskri sögu og menningu, sækir innblástur sinn til landsins bestu skálda, fegurstu náttúru og elstu þjóðlaga. Og Íslendingar finna þessar djúpu rætur og tengjast þeim skilyrðislaust. Lög eins og „Hvert örstutt spor“ eða „Smávinir fagrir“ eru löngu orðin hluti af þjóðarsálinni og vandséð að á því verði nokkur breyting, hvorki í bráð né lengd.