13. mars 2006
Getur fjórði píanókonsert Saint-Saëns læknað hvern sem er af óbeit á tónlist?
Fimmtudaginn 16. mars mun David Charles Abell stjórna hljómsveitinni á tónleikunum í Háskólabíói. Hann hefur getið sér gott orð sem stjórnandi bandarískra verka, ekki síst eftir lærimeistara sinn, Bernstein. Á þessum tónleikum sýnir hann á sér aðra hlið , stjórnar tveimur frönskum meistaraverkum frá síðari hluta nítjándu aldar auk 3. sinfóníu Coplands. Einleikari í píanókonsert Saint-Saëns er Stephen Hough en hann ku vera einn þeirra fáu í sínu fagi sem leggja sig sérstaklega fram um að kynna áheyrendum tónlist sem er úr alfaraleið. Þess má geta að hljóðritanir hans ásamt Sinfóníuhljómsveitinni í Birmingham á öllum píanókonsertum Saint-Saëns hlutu Grammy tilnefningu auk þess að hljóta verðlaun frá tímaritinu virta Grampohone. +++ Þeir Gabriel Fauré og Camille Saint-Saëns voru samferðamenn, þótt tíu ára aldursmunur væri á þeim. Saint-Saëns var kennari Faurés og síðar fjölskylduvinur og báðir voru þeir trúir hinni sterku frönsku hefð og störfuðu um hríð sem organistar. Þeir voru 19. aldar menn, sem þó lifðu fyrsta fimmtung 20. aldarinnar og þar með einhverjar mestu breytingar sem hafa orðið í vestrænni tónlistarsögu, þótt þeir tækjust á við þær á ólíkan hátt. Hans von Bulow sagði um píanókonsert Saint-Saëns að hann gæti læknað hvern sem er af óbeit af tónlist, svo nú er rétti tíminn til þess að bjóða efasemdarmönnum um gildi tónlistar á tónleika ef marka má orð hans! Um þriðju sinfóníu sína segir Aaron Copland: „Það að semja sinfóníu hlýtur að vekja upp spurningar um það hvað hún eigi að tákna. Ég hugsa að ef ég þvingaði mig til þess gæti ég sett fram hugmyndafræðilegan grunn fyrir sinfóníuna. En ef ég gerði það væri ég að skrökva, eða bætti að minnsta kosti einhverju við eftirá, einhverju sem gæti eða gæti ekki verið satt, en hafði ekkert að segja á meðan á sjálfri sköpuninni stóð. Harold Clurman orðaði það vel sem ég á við þegar hann sagði: „tónlist er endurspeglun af og svar við hinum ýmsu heimum mannanna, hún er leikur, hún er tal, hún er ómeðvituð viðbrögð og meðvituð yfirlýsing allt í senn“.