EN

21. september 2020

Hljómsveitarstjóri með reynslu af heimskautasiglingum

Viðtal við Evu Ollikainen, nýskipaðan aðalhljómsveitarstjóra og listrænan stjórnanda Sinfóníuhljómsveitar Íslands.

„Ég er himinlifandi,“ segir Eva Ollikainen aðspurð um hvernig nýja hlutverkið leggist í hana. „Núorðið hef ég komið alloft til Íslands og hlakka til að koma oft í viðbót en í hvert skipti sem ég flýg yfir landið og virði fyrir mér landslagið verð ég bergnumin – náttúran veitir mér bæði gleði og orku. Það er eiginlega erfitt að færa það í orð. Og fólkið er stórkostlegt, svo kraftmikið og sterkt. Mér finnst ég einfaldlega ólýsanlega heppin og ég er full gleði og eftirvæntingar að hefja samstarfið með frábæru tónlistar- og starfsfólki Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Saman megum við svo vera innilega þakklát ef starfsárið getur hafist með venjubundnum hætti,“ segir hún. „En það bærast margar tilfinningar innra með manni þessa dagana,“ bætir hún við og vindur talinu aftur að ástandinu í heiminum. „Ég finn til mikillar samúðar með kollegum okkar víða um heim, þar sem sinfóníuhljómsveitir horfa fram á afar óvissa framtíð og sumar munu ekki geta haldið áfram að starfa. Sinfóníuhljómsveit sem leyst er upp smellur ekki svo auðveldlega saman aftur þegar betur árar. Það tekur alla þessa mikilhæfu einstaklinga mörg ár að vaxa saman í þá síkviku, lífrænu heild sem sinfóníuhljómsveit er.“

Ný tónverk eru svipmynd af samtíðinni

Það er að mörgu að hyggja þegar laða á það besta fram í þessari síkviku, lífrænu heild, eins og kemur í ljós þegar Eva Ollikainen er spurð um áherslur sínar í starfinu. „Allar hljómsveitir þurfa að vinna í hljómi sínum, kanna möguleika hljómlitar og tjáningar í tónlistinni. Sinfóníuhljómsveit Íslands er enn frekar nýlega flutt inn í þennan magnaða sal og það er alltaf hægt að finna leiðir til að ná því besta fram í rýminu. Það eru ákveðin verk sem hjálpa til í þessari vinnu – Beethoven, Brahms, Bruckner, Mahler og Strauss, svo dæmi séu tekin. En svo þarf alltaf að gæta þess að sinfóníuhljómsveitin verði ekki eins og safn. Hún þarf að vera í lifandi samtali við samtímann, leika verk samtímatónskálda. Ný verk spegla tíðarandann og flytja framtíðinni svipmynd af okkar samtíð. Þess vegna vil ég hafa mikið af nýrri tónlist á efnisskránum hér – það eru svo mörg stórkostleg íslensk tónskáld og ég er mjög spennt að vinna með þeim. Það er líka mikilvægt að íslensk tónskáld fái tækifæri til að reyna sig við stóru tónsmíðaformin, konserta og sinfóníur – þannig gerir Sinfóníuhljómsveit Íslands sitt til þess að viðhalda endurnýjun listformsins.“ Samfélagsleg vídd hljómsveitarstarfsins er Evu líka hjartans mál. „Ég vil að Sinfóníuhljómsveit Íslands sé hljómsveit allra landsmanna – að fólk sem ekki getur komið í Hörpu geti samt notið tónleika okkar, hvort sem er í sjónvarpi, með streymi um vefinn eða í tónleikaferðalögum okkar innanlands,“ segir hún. „Svo mætast hið samfélagslega og listræna í áhuga mínum á því að setja á dagskrá verk eftir áður óþekkt tónskáld – konur og fólk af öðrum uppruna en vestur-evrópskum. Það hafa allir gott af því að láta koma sér á óvart og það er eitthvað sem mig dreymir um að leyfa íslenskum tónleikagestum að njóta í ríkara mæli.“

Því fyrr sem maður byrjar, því betri verður maður

Meðal þeirra nýjunga sem Eva Ollikainen hyggst færa inn í starfsemi Sinfóníuhljómsveitar Íslands er akademía fyrir unga nemendur í hljómsveitarstjórn, sem fá þannig tækifæri til að stjórna alvöru hljómsveit. Þetta framtak er í anda þess brautryðjandastarfs sem finnski hljómsveitarstjórinn Jorma Panula vann í Finnlandi, en Eva Ollikainen er einmitt einn af mörgum nemendum hans við Sibeliusar-akademíuna í Helsinki sem náð hafa langt sem hljómsveitarstjórar. „Hans heimspeki er einföld: Því fyrr sem maður byrjar, því betri verður maður. Það er mikið til í því og þetta er frábær leið til þess að leita uppi hæfileikaríkt ungt fólk og gefa því tækifærin sem það þarf til þess að þroskast. Það er mikilvæg fjárfesting í tónlistarlífinu,“ segir Eva Ollikainen. „Það er vissulega svolítið eins og að stökkva út í djúpu laugina að standa fyrir framan fullskipaða sinfóníuhljómsveit í fyrsta skipti. En ef maður er enn ungur hefur maður ekki komið sér upp sálrænum hindrunum. Ég man þegar ég fékk fyrst tækifæri til þess að stjórna stórri hljómsveit í tíma hjá Panula, 15 ára gömul. Ég sagðist vilja prófa fyrsta kaflann í þriðju sinfóníu Brahms. „Frábær hugmynd!“ sagði hann – og ég lagði á djúpið án þess að hafa hugmynd um að þetta þætti mjög snúinn kafli og síst neitt byrjendaverk. Ég held að mér hafi aldrei gengið jafnvel að stjórna þessum kafla og þá – einfaldlega af því að ég vissi ekki hvað hann væri erfiður. Þetta er galdurinn sem Panula kann svo vel – að hvetja, spyrja réttra spurninga og sjá að sérhver nemandi er einstakur. Þessu vil ég miðla áfram.“

Lærði mikið af skipstjórum

Þótt Eva Ollikainen vilji hvetja ungt fólk til dáða viðurkennir hún að sér finnist hún sjálf hafa verið helst til ung þegar hún hóf sinn alþjóðlega feril sem stjórnandi – en íslenskir tónleikagestir muna ef til vill eftir því þegar hún stjórnaði feikilega vel heppnuðum áskriftartónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands í Háskólabíói 2007, þá aðeins 27 ára gömul. „Líf mitt varð fljótt mjög viðburðaríkt og krefjandi. Sá tími kom að ég varð að taka hlé frá tónlistarheiminum. Þá sigldi ég tvisvar frá syðsta odda Argentínu til Suðurskautslandsins, fyrst sem farþegi en svo sem skipverji. Svo sigldi ég frá Suður-Afríku til Írlands. Ég hef aldrei í lífinu verið jafnsterk líkamlega og eftir siglingarnar – þetta var á hásigldum skipum þar sem klífa þurfti möstur, toga í reipi, skúra dekk og hvaðeina. Ég man eftir að hafa hugsað: Nú gæti ég stjórnað öllum Mahler-sinfóníunum í einni beit eins og að drekka vatn. Ég lærði líka ótrúlega margt af skipstjórunum sem ég starfaði með – ég ber ótakmarkaða virðingu fyrir góðum skipstjórum, sem leiða áhöfnina af mikilli þekkingu og auðmýkt.“ Og bátarnir og skipin eru einmitt á meðal þess sem Eva Ollikainen kann að meta við tónlistarhúsið Hörpu.

„Í hvert skipti sem ég kem horfi ég löngunaraugum á bátana í höfninni. Einhverra hluta vegna eru það fjöll og vötn sem færa mér mesta orku – þetta er óvenjulegt því flestir Finnar eru tengdari skógunum,“ segir Eva Ollikainen, sem nú er búsett í Danmörku sem manni sínum og tveimur börnum. „En þetta er ástæða þess að mér líður virkilega eins og heima hjá mér þegar ég kem til Íslands.“