EN

  • chandoschan10660

14. apríl 2011

Nýr hljómdiskur hlýtur frábæra dóma

– „Hljómsveit á heimsmælikvarða“, segja gagnrýnendur

Fyrir skömmu kom á markað nýr hljómdiskur þar sem Sinfóníuhljómsveit Íslands leikur tvö hljómsveitarverk eftir franska tónskáldið Vincent d'Indy. Diskurinn er sá fjórði í útgáfuröð Chandos-forlagsins sem vakið hefur mikla hrifningu, en skemmst er að minnast þess að fyrsti diskurinn hlaut tilnefningu til Grammy-verðlauna árið 2008. Þá var annar diskurinn í röðinni valinn einn af diskum mánaðarins hjá tímaritinu Gramophone ári síðar. Á nýja diskinum flytur Sinfóníuhljómsveitin Ítalska sinfóníu d'Indys, sem er æskuverk innblásið af fjórum ítölskum borgum, auk síðverksins Poème des rivages sem lýsir dulúð og krafti Atlantshafsins í tónum.

Gagnrýnendur fara fögrum orðum um nýja diskinn, sem var meðal annars valinn diskur maímánaðar hjá breska veftímaritinu MusicWeb. Gagnrýnandi MusicWeb, Dan Morgan, segir að Sinfóníuhljómsveit Íslands sé „fyrsta flokks sveit“ og að varla eigi nokkur eftir að heyra meira sannfærandi flutning en þennan. Lokaorð hans eru að diskurinn sé „algjörlega óflekkuð ánægja“ og hvetur lesendur til að gleðja sig með því að fjárfesta í honum.

Í maí birtist dómur um diskinn í tímaritinu Gramophone, sem almennt er talið það virtasta í heimi klassískrar tónlistar. Blaðið mælir sérstaklega með diskinum og gagnrýnandinn Ivan March fer loflegum orðum bæði um verkin og flutninginn. Hann segir að Poème des rivages sé á sinn hátt enn áhrifameiri lýsing á Atlantshafinu en La mer eftir Debussy, og spyr hvers vegna verkið sé ekki flutt mun oftar. Um flutninginn segir March meðal annars: „Hin framúrskarandi góða Sinfóníuhljómsveit Íslands er sannarlega hljómsveit á heimsmælikvarða; Rumon Gamba laðar fram sérlega áhrifamikla spilamennsku, og stemningsrík hljóðritunin er fyrsta flokks.“

Þá segir gagnrýnandi International Record Review að stjórnandinn, Rumon Gamba, hafi „fullkominn skilning á hinu áhrifamikla en erfiða verki“, og laði fram „fágaða spilamennsku“ hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands. Þess er getið sérstaklega að rúmgóð hljóðritunin skili hverju smáatriði vel og sé jafnvel sú besta sem gerð hafi verið í Háskólabíói fyrir Chandos-útgáfuna. Þess má geta að tónmeistari Chandos á öllum fjórum diskunum með verkum d'Indys er Georg Magnússon.