EN

Tónleikar & miðasala

maí 2019

Quentin Blake-The Giraffe and the Pelle and me

Strákurinn og slikkeríið 4. maí 14:00 Laugardagur Eldborg | Harpa

Strákurinn og slikkeríið er nýtt tónlistarævintýri eftir Jóhann G. Jóhannsson sem byggt er á sögu eftir Roald Dahl. Jóhann G. samdi tónlistina við Skilaboðaskjóðuna og færði lög Astrid Lindgren í hljómsveitarbúning á fádæma vinsælum tónleikum Sinfóníuhljómsveitarinnar síðastliðið haust. Í Stráknum og slikkeríinu sláumst við í för með litlum dreng og þremur kostulegum vinum hans úr dýraríkinu: gíraffa, pelíkana og apa. 

Í grípandi sönglögum og litríkum ljóðum bregða söngvararnir sér í líki sögupersónanna, jafnt dýra sem manna. Andi Roalds Dahl svífur yfir vötnum með kímni, spennu og óvæntum vendingum allt til enda. Í tónlistarævintýrinu taka Brynhildur Guðjónsdóttir og Unnsteinn Manuel Stefánsson ásamt Stúlknakór Reykjavíkur höndum saman og hjálpast að við leysa vandamál og láta drauma rætast. Hljómsveitarstjóri er Noam Aviel sem þreytir frumraun sína með Sinfóníuhljómsveit Íslands.

  • Strákurinn og slikkeríið

    Tónlist og texti eftir Jóhann G. Jóhannsson byggt á sögu Roald Dahl

  • Hljómsveitarstjóri

    Noam Aviel

  • Söngvarar

    Brynhildur Guðjónsdóttir og
    Unnsteinn Manuel Stefánsson

  • Kór

    Stúlknakór Reykjavíkur

Lugansky spilar Grieg 9. maí 19:30 Fimmtudagur Eldborg | Harpa

Rússneski píanósnillingurinn Nikolai Lugansky vakti gífurlega hrifningu haustið 2016 þegar hann lék þriðja píanókonsert Rakhmanínovs í Eldborg á fyrstu tónleikunum sem Yan Pascal Tortelier stýrði sem aðalstjórnandi Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Lugansky snýr nú aftur til Íslands og leikur hinn sívinsæla píanókonsert Griegs, þar sem tónskáldið sameinar í stóru formi blæbrigði norskra þjóðlaga og tónsmíðahefð þýskrar rómantíkur. Konsertinn varð umsvifalaust einn sá vinsælasti sem um getur. Þegar Franz Liszt hafði leikið hann í návist tónskáldsins árið 1870 er sagt að píanistinn frægi hafi hrópað upp yfir sig: „Haltu áfram að semja, í Guðs bænum! Þú hefur það sem til þarf!“

Önnur verk á efnisskránni eru þrungin spennu. Dramatískur forleikur Verdis að óperunni Á valdi örlaganna setur sviðið fyrir harmleikinn sem í vændum er: elskendurnir Alvaro og Leónóra fá ekki að eigast vegna andstöðu foreldranna. Hið sama er vitaskuld uppi á teningnum í Rómeó og Júlíu, og tónlist Prokofíevs fangar öll blæbrigði ástarinnar með áhrifamiklum hætti. Aðalstjórnandi Sinfóníuhljómsveitarinnar, Yan Pascal Tortelier, hefur stjórnað ballettsvítum Prokofíevs víða um heim við frábærar undirtektir og það verður spennandi að fylgjast með túlkun hans á þessu magnaða verki.  

Tónleikakynning » 18:00

Brahms og Bjarni Frímann 16. maí 19:30 Fimmtudagur Eldborg | Harpa

Tveir frábærir íslenskir strengjaleikarar leiða saman hesta sína á þessum tónleikum. Ari Þór Vilhjálmsson hefur hlotið mikið lof fyrir leik sinn og er nú leiðari 2. fiðlu Fílharmóníusveitarinnar í Helsinki, en Sigurgeir Agnarsson er leiðandi sellóleikari Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Sama leika þeir tilfinningaþrunginn tvíkonsert Brahms fyrir fiðlu og selló, síðasta hljómsveitarverk meistarans. Akademíski hátíðarforleikurinn er glaðvært skemmtistykki sem Brahms samdi í þakkarskyni eftir að honum hafði verið veitt heiðursdoktorsnafnbót við þýskan háskóla. Verkinu lýkur með stúdentasöngnum Gaudeamus igitur og á það vel við á vordögum þegar útskriftir eru á næsta leiti.

Louise Farrenc var framúrskarandi píanóleikari á 19. öld og starfaði í meira en þrjá áratugi sem prófessor í píanóleik við Tónlistarháskólann í París. Hún samdi fjölmörg píanó- og kammerverk, en einnig þrjár rómantískar sinfóníur sem þykja sérlega vel heppnaðar. Á síðustu árum hafa tónsmíðar Farrenc verið grafnar úr gleymsku og þykir ljóst að hún verðskuldar stóran sess í tónlistarsögunni. Í kjölfar tónleikanna verður sinfónía Farrenc hljóðrituð fyrir geisladisk á vegum breska hljómplötuforlagsins Chandos og er sérstakt ánægjuefni að Sinfóníuhljómsveit Íslands leggi sitt af mörkum til að kynna verk þessa merka tónskálds á alþjóðlegum vettvangi. Tónleikunum lýkur á spænskuskotinni fantasíu Chabriers þar sem hann fléttar saman sprellfjöruga spænska dansa með eftirminnilegum tilþrifum. 

Thibaudet og Beethoven 23. maí 19:30 Fimmtudagur Eldborg | Harpa

Franski píanistinn Jean-Yves Thibaudet hefur um áratuga skeið verið einn sá fremsti á heimsvísu. Hljóðritanir hans hafa selst í metupplögum og hann hefur haldið tónleika með stjörnulistamönnum á borð við Joshua Bell, Renée Fleming og Ceciliu Bartoli. Árið 2011 frumflutti Thibaudet píanókonsert nr. 3 eftir skoska tónskáldið James MacMillan, litríkt og stórbrotið verk innblásið af aldagömlum kirkjusöng og trúarsiðum kaþólskra. Tónlist MacMillans er sérlega litrík og eftir frumflutninginn skrifaði einn gagnrýnandi að verkið væri „yfirflæðandi af litum og áhugaverðum augnablikum“. Það er sannarlega tilhlökkunarefni að Thibaudet skuli flytja þetta verk á Íslandi og að samverkamaður hans hér sé einmitt Osmo Vänskä, heiðursstjórnanda Sinfóníuhljómsveitar Íslands, sem einnig stýrði frumflutningnum. 

„Hetjuhljómkviða“ Beethovens er eitt af tímamótaverkum tónlistarsögunnar, kynngimagnað verk sem sprengdi öll viðmið um það hvað sinfónía átti að vera. Innblásturinn að verkinu er sagður hafa verið sjálfur Napóleón, en þegar hann tók sér keisaranafnbót dró Beethoven tileinkunina til baka. Tónlistin er þó eftir sem áður innblásin af ímynd hetjunnar, kraftmikil og djörf. Tónleikarnir hefjast á stemningsríku verki Kaiju Saariaho, einu margverðlaunaðasta samtímatónskáldi Norðurlanda. Hér sækir hún innblástur í norrænan vetrarhiminn og viðbrögð gagnrýnenda hafa öll verið á einn veg: „dásamlega fagurt næturljóð með impressjónísku ívafi“ og „einhver áhrifamesta tónlist sem Saariaho hefur samið til þessa.“

  • Efnisskrá

    Kaija Saariaho Ciel d’hiver (Vetrarhiminn)
    James MacMillan Píanókonsert nr. 3, „Leyndardómar ljóssins“
    Ludwig van Beethoven Sinfónía nr. 3, „Hetjuhljómkviðan“

  • Hljómsveitarstjóri

    Osmo Vänskä

  • Einleikari

    Jean-Yves Thibaudet

Tónleikakynning » 18:00