EN
  • 20191004Grenivikurskoli_SINFO

4. október 2019

Nemendur um allt land horfðu á beint streymi frá skólatónleikum

Ríflega 2.000 nemendur frá 27 bæjarfélögum um land allt horfðu á beint streymi frá skólatónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands í dag en í vikunni tók hljómsveitin á móti um 6.000 nemendum á skólatónleikum í Hörpu. Tónleikagestum og áhorfendum streymisins var boðið í tímaflakk í tónheimum þar sem Sinfóníuhljómsveitin flutti sig eftir tímaás tónlistarsögunnar og staldrar við merk kennileiti. Hljómsveitarstjóri var Michelle Merill og leiðsögumenn í þessum tónlistarleiðangri voru þau Þuríður Blær Jóhannsdóttir og Guðmundur Felixson.

Nemendur í leikskólanum Árborg fylgjast spennt með beinu streymi frá skólatónleikum

Meðal þeirra skóla sem horfðu á streymið voru grunn- og leikskólarskólar á Akureyri, Bíldudal, Blönduósi, Bolungarvík, Dalvík, Flúðum, Grenivík, Hólmavík, Húsavík, Hveragerði, Ísafirði, Neskaupsstað, Ólafsfirði, Ólafsvík, Patreksfirði, Reyðarfirði, Sauðárkróki, Selfossi, Seyðisfirði, Suðureyri, Vopnafirði, Þingeyri og Þórshöfn.

Skólatónleikarnir eru hluti af metnaðarfullu fræðslustarfi hljómsveitarinnar en ár hvert heldur hún fjölmarga tónleika þar sem nemendum allt frá leikskólaaldri til framhaldsskólanema er boðið að hlusta á vandaða dagskrá í tali og tónum. Á síðasta starfsári tók Sinfóníuhljómsveit Íslands á móti ríflega 15.000 nemendum í Hörpu.