EN

28. október 2019

Á leið í tónleikaferð með Sinfóníuhljómsveit Íslands

Viðtal við Víking Heiðar Ólafsson.

Í upphafi starfsársins var Víkingur Heiðar Ólafsson tekinn tali þar sem hann ræddi tónleikaferð Sinfóníuhljómsveitar Íslands með Daníel Bjarnasyni til Þýskalands og Austurríkis í nóvember, verkefnin framundan og hlutverk sitt sem staðarlistamaður hjá Konzerthaus í Berlín. Hljómsveitin hitar upp fyrir tónleikaferðina í Eldborg 7. og 8. nóvember þar sem Víkingur leikur píanókonsertinn Processions eftir Daníel Bjarnason en Daníel stjórnar hljómsveitinni á tónleikunum og í ferðinni. Hér er hægt að tryggja sér miða á tónleikana en einungis örfáir miðar eru eftir á tónleikana.

Víkingur er kominn í hóp fremstu einleikara á heimsvísu og hlaut nú á dögunum hin virtu og eftirsóttu Gramophone-verðlaun sem listamaður ársins. Síðasta ár var afar annasamt hjá Víkingi og uppskar hann mikið lof fyrir tónleikahald sem og annan hljómdisk sinn undir merkjum Deutsche Grammophon, sem inniheldur stór og smá verk eftir Johann Sebastian Bach. Diskurinn hefur hlotið frábæra dóma, hlaut til dæmis tvenn verðlaun á BBC Music Magazine Award auk þess sem hún var valin ein af útgáfum mánaðarins í Gramophone og plata vikunnar í The Sunday Times ásamt því að hún var valinn plata ársins á hinum virtu þýsku verðlaunum Opus Klassik í september 2019. 

Víkingur var valinn listamaður ársins af Gramophone í október 2019 en verðlaunin eru einhver virtustu tónlistarverðlaun sígildrar tónlistar.

Frelsi í klassískum frumskógi

„Þetta ár er mjög spennandi fyrir mig, fullt af ólíkum verkefnum með frábærum tónlistarmönnum og hljómsveitum,“ segir Víkingur. „Undanfarin misseri hafa verið ótrúlega skemmtileg, verkefnin hafa verið krefjandi en um leið langþráð upplifun að fá að spila í tónleikasölum sem ég gat aðeins látið mig dreyma um fyrir ekki svo löngu síðan. Það sem mér finnst allra dýrmætast er að finna að ég get valið mér verkefni út frá listrænum forsendum. Það tekur ótrúlega langan tíma að ná alvöru stjórn á lífi sínu í þessum frumskógi sem klassíski tónlistarheimurinn er.“

Nýjasta plata Víkings með verkum Bachs hefur hlotið einróma lof gagnrýnenda.

Staðarlistamaður Konzerthaus

Víkingur hefði verið valinn staðarlistamaður í hinu virta tónleikahúsi Konzerthaus í Berlín starfsárið 2019/20. „Þetta verður svona eins og tónlistarheimilið mitt þetta starfsár. Konzerthaus er einstakt hús, ofboðslega fallegt og um það leikur rómantískur blær 19. aldar,“ segir Víkingur aðspurður hvað þessi staða þýði fyrir hann. „Ég verð í forgrunni með mörg ólík verkefni í húsinu, þar af fjóra píanókonserta, tvenna einleikstónleika og þrenna kammertónleika með frábærum listamönnum. Svona staða gerir manni kleift að sýna á sér margar hliðar og þannig reyni ég að nýta hana. Fólk fær ekki bara að kynnast mér sem Bach-flytjanda heldur einnig sem flytjanda splunkunýrrar tónlistar, til dæmis í píanókonserti Thomasar Adés og í kvintett eftir Bent Sørensen. Ég mun líka spila Mozart-konsert og stjórna frá flyglinum, held útgáfutónleika fyrir næstu einleiksplötu í júní 2020, og margt fleira. Þetta er líka skemmtilegt þar sem Berlín er mín önnur heimaborg og er í dag að mínu mati tónlistarhöfuðborg Evrópu. Staðarlistamenn í Konzerthaus síðustu ár hafa til dæmis verið Arcadi Volodos og András Schiff og það er mikill heiður að fá að stíga inn í þetta samhengi og prófa sig áfram.“

 

Tónleikar Sinfóníunnar í Konzerthaus eru hluti af Íslandshátíð
tónleikahússins 14. - 17. nóvember en Víkingur er listrænn stjórnandi hátíðarinnar.

Píanókonsertinn Processions

„Píanókonsertinn var frumfluttur árið 2009 og þetta voru fyrstu tónleikar okkar Daníels saman, sem einleikari og stjórnandi, og þetta var náttúrulega hans stóra debut. Hann var þá að stýra hljómsveitinni í fyrsta sinn og það var allt undir hjá honum. Á sama tíma var allt bilað í þjóðfélaginu, þetta var í miðri búsáhaldabyltingunni og það var mikil þörf fyrir eitthvað annað en fréttir af föllnum bönkum og útrásarvíkingum. Við vorum innrásarvíkingarnir á þessum tónleikum, með svona tónlistarlega innrás. 

5EF43587-319D-4AA0-B78E-EA4452CCC8E8

Víkingur og Daníel að loknum frumflutningi á píanókonsertinum Processions
með Sinfóníuhljómsveit Íslands í Háskólabíói fyrir rétt rúmum tíu árum síðan. 

Eftir frumflutninginn á Íslandi lá konsertinn í dvala. „Við spiluðum verkið tvisvar eða þrisvar eftir þetta en svo hefur það legið í dvala í nokkur ár,“ segir Víkingur. „Nú er það aftur komið í umferð og það er mikil eftirspurn eftir því. Ég hef leikið það með Sænsku útvarpshljómsveitinni, Sinfóníuhljómsveit Toronto, MDR-útvarpshljómsveitinni í Leipzig og víðar. Það er mjög skemmtilegt því oft hefur maður áhyggjur af því með nýja músík, jafnvel þótt hún sé frábær, að hún lendi ofan í skúffu eftir frumflutning. Þannig er mjög gaman að finna að þetta verk eigi svona gott líf á 10 ára afmæli sínu.“ 

 

Upptaka af Processions með Sinfóníuhljómsveit Íslands og Víkingi
frá árinu 2010 er aðgengileg á Spotify.

Í nóvember heldur Sinfóníuhljómsveitin í tónleikaferð til Þýskalands og Austuríkis, meðal annars með píanókonsertinn í farteskinu. „Þetta er fyrsti túrinn minn með hljómsveitinni,“ segir Víkingur, „og það er tilhlökkunarefni. Þetta eru skemmtilegar menningarborgir sem við heimsækjum, Salzburg, München og Berlín, og ég er í engum vafa að þetta verði eftirminnileg og góð ferð,“ segir hann að lokum.