EN

28. september 2019

Aukatónleikar með Víkingi og Daníel 8. nóvember

Vegna mikillar eftirspurnar og fjölda áskorana hefur verið bætt við aukatónleikum
8. nóvember á tónleika Sinfóníuhljómsveitar Íslands með Víkingi Heiðari Ólafssyni og Daníel Bjarnasyni en uppselt er orðið á tónleikana 7. nóvember. Tónleikarnir eru upphitun fyrir tónleikaferð hljómsveitarinnar til Þýskalands og Austurríkis síðar í mánuðinum. 

Kaupa miða tónleikana



Það var stórviðburður í íslensku tónlistarlífi þegar Víkingur Heiðar frumflutti nýjan píanókonsert Daníels Bjarnasonar, Processions, með Sinfóníuhljómsveit Íslands árið 2009. Í kjölfarið hefur konsertinn hljómað víða um heim og hlotið frábæra dóma heimspressunnar. Víkingur er kominn í hóp fremstu einleikara á heimsvísu og undanfarin misseri hefur hann leikið með fremstu hljómsveitum í Evrópu og Bandaríkjunum. Í nóvember heldur Sinfóníuhljómsveit Íslands í tónleikaferð til Þýskalands og Austurríkis. Í Konzerthaus í Berlín verða haldnir tónleikar með Víkingi sem er nú staðarlistamaður tónleikahússins, en einnig verða haldnir tónleikar í München og Salzburg, þar sem króatíski hornsnillingurinn Radovan Vlatković leikur einnig einleik.

Í aðdraganda ferðarinnar leikur Sinfóníuhljómsveit Íslands efnisskrána á tvennum tónleikum í Hörpu. Þar hljóma sívinsælir þættir úr Pétri Gaut eftir Grieg, yndisfagur hornkonsert Mozarts og kröftug sinfónía Sibeliusar, auk píanókonsertsins Processions.

Á Spotify má hlusta á efnisskrá tónleikanna en hljómsveitin leikur
verkin einnig á tónleikaferð til Þýskalands og Austurríkis

Með áskrift að Regnbogakorti getur þú tryggt þér góð sæti með 20% afslætti á aukatónleikana með Víkingi og Daníel. Hægt er að kaupa Regnbogakort með minnst fernum tónleikum.

Kaupa Regnbogakort