EN

29. október 2020

Bein útsending á RÚV 5. og 12. nóvember

Á meðan ekki er hægt að taka á móti gestum í sal býður Sinfóníuhljómsveit Íslands upp á tónleika í beinni sjónvarpsútsendingu á RÚV fimmtudagana 5. og 12. nóvember. Tónleikunum er einnig útvarpað í beinni á Rás 1.

Haydn og Britten – 5. nóvember kl. 20
Á fyrri tónleikunum verður boðið upp á sannkallaða tónlistarveislu undir stjórn Evu Ollikainen, aðalstjórnanda hljómsveitarinnar. Á efnisskránni er hið hugljúfa Siegfried-Idyll eftir Wagner, Lachrymae fyrir víólu og strengi eftir Britten og Sinfónía nr. 85 eftir Haydn. Einleikari er Þórunn Ósk Marínósdóttir, leiðari víóludeildar hljómsveitarinnar.

Stuart Skelton syngur Wagner – 12. nóvember kl. 20
Fimmtudaginn 12. nóvember er það heimstenórinn Stuart Skelton sem stígur á svið með Sinfóníuhljómsveit Íslands í beinni sjónvarpsútsendingu og flytur Wesendonck-söngva Wagners. Einnig leikur Sigurgeir Agnarsson sellókonsert í C-dúr eftir Haydn og að lokum flytur hljómsveitin verkið Lyric for strings eftir bandaríska tónskáldið George Walker. Hljómsveitarstjóri er Eva Ollikainen.

Í ljósi samkomutakmarkana getur Sinfóníuhljómsveit Íslands ekki tekið á móti gestum í sal á tónleikana og hefur einnig þurft að aðlaga áður auglýsta dagskrá að breyttu ástandi.

Njótið tónlistarinnar heima í stofu og vonumst til að sjá ykkur fljótt aftur í Hörpu.