EN

3. september 2021

Stóraukið samstarf við RÚV um beinar sjónvarpsútsendingar

Sinfóníuhljómsveit Íslands verður reglulegur gestur á sjónvarpsskjáum landsmanna í vetur, en hljómsveitin hefur gert samkomulag við RÚV um aukið samstarf um beinar sjónvarpsútsendingar frá tónleikum hljómsveitarinnar. Í samkomulaginu felst að RÚV mun senda beint út frá fernum Sinfóníutónleikum í vetur; í október, nóvember, mars og maí, auk þess sem tónleikarnir Klassíkin okkar verða sendir út á RÚV í kvöld, en þeir eru fyrir löngu eru orðnir fastur liður í dagskránni í upphafi vetrar.

Beinu útsendingarnar verða á miðvikudagskvöldum kl. 20:00 og eru tónleikarnir um klukkustundarlangir í heild. Með þessu framtaki vill hljómsveitin auka fjölbreytni í tónleikahaldi sínu og gefa landsmönnum öllum kost á því að njóta tónleika hljómsveitarinnar. Að sjálfsögðu verður einnig útvarpað beint tónleikunum á Rás 1 eins og öðrum tónleikum hljómsveitarinnar.

Á hverjum tónleikum verður fjölbreytt og glæsileg efnisskrá með fjölda íslenskra einleikara og má þar finna allt frá meistaraverkum sinfóníutónlistarinnar til glænýrra einleikskonserta. Einleikarar og einsöngvarar á tónleikunum verða Víkingur Heiðar Ólafsson píanóleikari, Stefán Jón Bernharðsson hornleikari, Þórunn Ósk Marinósdóttir víóluleikari og Benedikt Kristjánsson tenórsöngvari, en stjórnendur eru Daníel Bjarnason annars vegar og hins vegar Eva Ollikainen, aðalhljómsveitarstjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands, sem slær lokatón beinu útsendinganna á vormánuðum næsta árs með Sinfóníu nr. 5 eftir Shostakovitsj, sem talin er ein magnaðasta tónsmíð 20. aldarinnar. Kynnir á tónleikunum verður Halla Oddný Magnúsdóttir.

„Sinfóníuhljómsveit Íslands er sannkölluð þjóðarhljómsveit og hefur á tímum kófsins flutt landsmönnum tónlist í gegnum beinar útsendingar, streymi, heimsendingar og heimsóknir. Undirtektir voru með eindæmum góðar og í framhaldi af því hefur samstarf Sinfóníuhljómsveitarinnar og RÚV verið eflt til muna. Heimsfaraldurinn hefur kennt okkur að hugsa út fyrir okkar hefðbundna ramma og sýnt og sannað hversu mikilvæg tónlistin er okkur öllum. Tónleikaröðin er því frábær viðbót í okkar fjölbreyttu tónleikaflóru; aðgengilegir, fjölskylduvænir og framsæknir,“ segir Lára Sóley Jóhannsdóttir framkvæmdastjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands.

„Blessunarlega hefur eitthvað jákvætt komið út úr þessu sérkennilega COVID-ástandi og eitt af því fáa er hið aukna og nánara samstarf RÚV og Sinfóníunnar. Það opinberaðist á síðastliðnum vetri með röð sérstaklega útfærðra sjónvarpstónleika sem miðuðu að því að vera aðgengilegir og höfða þar með til breiðs hóps tónlistarunnenda og sjónvarpsáhorfenda. Þessi nýbreytni mæltist það vel fyrir að ákveðið var að endurtaka leikinn og bjóða upp á sambærilega tónleikaröð á komandi vetri sem vonandi verður til þess að hún festi sig í sessi - enda afar kærkomin viðbót við þá metnaðarfullu menningardagskrá sem framundan er í sjónvarpinu okkar allra,“ segir Skarphéðinn Guðmundsson dagskrárstjóri RÚV.