EN

18. janúar 2021

Berlínarfílharmónían frumflytur CATAMORPHOSIS eftir Önnu Þorvaldsdóttur

Föstudaginn 29. janúar nk. mun Fílharmóníuhljómsveit Berlínar frumflytja verkið CATAMORPHOSIS eftir Önnu Þorvaldsdóttur undir stjórn Kirill Petrenko, aðalstjórnanda hljómsveitarinnar. Hljómsveitin, sem þykir ein sú besta í heimi, sá einnig um Evrópufrumflutning verksins METACOSMOS í janúar 2019, en það var þá í fyrsta sinn sem þau fluttu verk eftir íslenskt tónskáld síðan 1941, þegar þau fluttu orgelkonsert Jóns Leifs. CATAMORPHOSIS er samið eftir pöntun frá Fílharmóníuhljómsveit Berlínar, auk Fílharmóníuhljómsveitar New York borgar, Sinfóníuhljómsveitar Birmingham og Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Til stendur að Sinfóníuhljómsveit Íslands flytju verkið í Hörpu þann 15. apríl nk. undir stjórn Bjarna Frímanns Bjarnasonar.

Vegna samkomutakmarkana í Þýskalandi út mars verða tónleikarnir í Berlín án áheyrenda í sal, en verða sendir út í hágæðastreymi í gegnum hinn „rafræna tónleikasal“ hljómsveitarinnar.  Á efnisskránni eru einnig píanókonsert nr 1 eftir Prokofiev með Daniil Trifonov sem einleikara og Sumarævintýri (A Summer's tale), sinfónískt ljóð eftir Josef Suk.

Anna Þorvaldsdóttir er handhafi Tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs 2012 og hefur vakið mikla athygli á heimsvísu, ekki síst fyrir hljómsveitarverk sín, sem klassíska tímaritið Gramophone segir einkennast „af öryggi og sterkum persónulegum stíl“, tónskáldið sé „afl sem taka þurfi tillit til“. Anna lauk BA gráðu frá Listaháskóla Íslands og masters- og doktorsgráðu frá Kaliforníuháskóla í San Diego í Bandaríkjunum. Hún er staðartónskáld Sinfóníuhljómsveitar Íslands. 

Tónleikarnir verða sendir út beint í streymisveitu Berlínarfílharmóníunnar kl. 20 eða  kl. 19 að íslenskum tíma og er hægt að nálgast streymið hér.