EN

17. maí 2021

Sinfónían tekur þátt í samfélagsverkefni

Korda Samfónía með sína fyrstu tónleika 21. maí

Nokkrir hljóðfæraleikarar úr Sinfóníuhljómsveit Íslands taka þátt í samstarfsverkefninu Korda Samfóníu, sem er ný 35 manna hljómsveit samsett af nemendum Listaháskóla Íslands og skjólstæðingum Hugarafls og Starfsendurhæfingastöðva Vesturlands, Hafnarfjarðar og Suðurnesja ásamt hjóðfæraleikurum Sinfóníuhljómsveitarinnar. Hljómsveitin kemur fram á tónleikum í Eldborg föstudagskvöldið 21. maí kl. 20:00 undir stjórn Sigrúnar Sævarsdóttur-Griffiths. Kynnir er Jónas Sigurðsson.

Aðgangur ókeypis en bóka þarf miða vegna takmarkaðs miðaframboðs.

Korda Samfónía er ný 35 manna hljómsveit sem var stofnsett í febrúar 2021 og koma hljómsveitarmeðlimir úr hinum ýmsu áttum, með mjög fjölbreyttar sögur að baki. Verkefnið er runnið undan rifjum MetamorPhonics, samfélagsmiðuðu fyrirtæki sem Sigrún Sævarsdóttir-Griffiths, tónlistarkona stýrir í London. Aðrir aðilar að verkefninu eru Tónlistarborgin Reykjavík og Harpa tónlistar- og ráðstefnuhús.

Á efnisskrá tónleikanna verður frumflutningur glænýrrar tónlistar, sem samin er af hljómsveitarmeðlimum í sameiningu undir stjórn Sigrúnar.

Hugmyndafræði MetamorPhonics byggir á því, að til þess að fólki vegni vel í lífinu, þurfi það að upplifa sig sem gjaldgenga, virka meðlimi samfélagsins og að á það sé hlustað. Því skapar MetamorPhonics einstakan, opinn og aðgengilegan vettvang til tónsköpunar, fyrir tónlistarnemendur á háskólastigi og fólk sem stendur á krossgötum í lífinu sem er að byggja sig upp eftir margs konar áföll, t.d. heimilisleysi, atvinnuleysi eða kulnun. MetamorPhonics rekur hljómsveitir í London, Leicester, Los Angeles og nú á Íslandi.

Í kjölfar tónleikanna verða umræður um gildi tónlistar sem meðferðarúrræði innan velferðar- og heilbrigðisgeirans og mikilvægi þess fyrir starfandi tónlistarfólk og tónlistarnemendur að tengjast öllum hliðum samfélagsins.