EN

7. júní 2019

Edda II: Líf guðanna komin út

Í dag kom út geisladiskur með flutningi Sinfóníuhljómsveitar Íslands á Eddu II: Líf guðanna eftir Jón Leifs hjá úgáfufyrirtækinu BIS. Hljóðritunin fór fram í Hörpu í apríl 2018 í kjölfarið af frumflutningi verksins 23. mars en tónleikarnir voru hluti af opinberri hátíðardagskrá í tilefni af aldarafmæli fullveldis Íslands. Einsöngvarar í verkinu eru Hanna Dóra Sturludóttir, Elmar Gilbertsson og Kristinn Sigmundsson ásamt Schola cantorum undir stjórn Harðar Áskelssonar. Hljómsveitarstjóri er Hermanns Bäumer.

Óratórían Edda er stærsta verk Jóns Leifs og eitt metnaðarfyllsta tónverk íslenskrar tónlistarsögu, risavaxin tónsmíð sem spannar þrjú kvöld, byggð á textum úr Eddukvæðum og Snorra-Eddu og átti að vera einskonar andsvar við Niflungahring Wagners. Segja má að smíði þessa verks hafi verið drjúgur hluti ævistarfs Jóns því hann hóf að leggja drög að Eddu I um 1930 en náði ekki að ljúka þriðju óratóríunni áður en hann lést árið 1968. Fyrsti hluti verksins, Edda I: Sköpun heimsins, var frumfluttur í heild árið 2006 og útgáfa verksins á geisladiski vakti heimsathygli og fékk frábæra dóma. Edda II: Líf guðanna segir síðan frá Óðni og sonum hans, ásynjum, valkyrjum og nornum á litríkan og dramatískan hátt. Það er sannkallað gleðiefni að annar hluti þessa stórvirkis, sem Jón Leifs samdi fyrir meira en hálfri öld og var á sínum tíma stærsta verk sem íslenskt tónskáld hafði samið, skuli nú vera komið út á geisladisk.

Diskurinn er væntanlegur í verslanir í næstu viku og verður til sölu í Smekkleysu á Skólavörðustíg og Epal í Hörpu. Einnig má hlusta á diskinn á Spotify.

www.spoti.fi/2IuqvK8