EN

4. maí 2020

Fernir tónleikar í beinni sjónvarpsútsendingu á RÚV

Nú þegar breytingar hafa verið gerðar á samkomubanni getur Sinfóníuhljómsveit Íslands loks komið saman á ný og mun hún halda ferna tónleika fyrir landsmenn í beinni sjónvarpsútsendingu á RÚV.

Hljómsveitin mun þó starfa í breyttri mynd þar sem að hámarki fimmtíu listamenn geta komið saman á sviðinu í Eldborg hverju sinni. Þessar sérstöku aðstæður kalla á nýjar leiðir og útsjónarsemi í starfi hljómsveitarinnar og hún hefur nú fengið til liðs við sig nokkra af fremstu listamönnum landsins. Einsöngvarar og einleikarar eru þau Hallveig Rúnarsóttir, Páll Óskar Hjálmtýsson og Víkingur Heiðar Ólafsson, og hljómsveitarstjórar eru Bjarni Frímann Bjarnason og Daníel Bjarnason.

„Það hefur verið lærdómsríkt að taka þátt í því að aðlaga starfsemi hljómsveitarinnar að samkomubanni. Venjulega eru um 90 manns á sviði sem sitja þétt og listamenn allstaðar að úr heiminum gestir okkar í hverri viku. Það hefur því krafist útsjónarsemi og hugmyndarflugs að endurskipuleggja starfið. Frá því í mars hefur fjöldi kammerhópa úr hljómsveitinni komið fram á tónleikum sem streymt hefur verið úr Eldborg í samstarfi við Hörpu og Íslensku óperuna, fimmtudagskvöld hafa verið Sinfóníukvöld á RÚV 2 og persónulegar heimsendingar hljóðfæraleikara hafa slegið í gegn á samfélagsmiðlum hér heima og erlendis. En með breytingum á samkomubanni frá 4. maí verða möguleikarnir fleiri og því breytist dagskráin okkar nú í maí. Við erum einstaklega lánsöm að á Íslandi býr og starfar listafólk í heimsklassa og höfum við fengið nokkra þeirra til samstarfs við okkur næstu vikurnar. Ég er ákaflega stolt af því að vera partur af hljómsveit sem tekst á við nýjar áskoranir af jákvæðni og er tilbúin að laga sig að aðstæðum hverju sinni. Allir leggjast á eitt svo hægt sé að halda tónleika innan þess ramma sem Almannavarnir hafa sett,“ segir Lára Sóley Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands.

Skólatónleikar í beinni útsendingu 7. maí

Lagt verður af stað með skólatónleikum fimmtudaginn 7. maí. Trúðurinn Aðalheiður leiðir þar Barnastund sem send verður til leik- og grunnskóla um land allt í beinu streymi á vef hljómsveitarinnar auk þess sem tónleikarnir verðra sýndir beint RÚV2.

„Það er dýrmætt að geta hafið dagskrána í maí á því að senda börnum landsins og kennurum þeirra sumargjöf með skólatónleikum í beinu streymi og fagna því að skólastarf sé nú aftur með eðlilegum hætti. Það er mikill heiður að Mennta- og menningarmálaráðherra, Lilja D. Alfreðsdóttir, mun opna stundina. Í samstarfi við Hörpu verða tveir skólahópar gestir í sal á tónleikunum. Það er í sjálfu sér mikil áskorun, en gríðarlega mikilvægt skref. Í þessum nýja veruleika sem við búum í verða margar slíkar áskoranir framundan og mikilvægt að við byrjum strax að takast á við þær og læra,“ segir Lára Sóley.

Hallveig syngur aríur 20. maí

Miðvikudaginn 20. maí mun hljómsveitin flytja nokkur meistaraverk eftir Wolfgang Amadeus Mozart, meðal annars þrjár stórkostlegar aríur úr óperum hans í flutningi Hallveigar Rúnarsdóttur. Einnig syngur Hallveig þrjú sígild íslensk sönglög sem eiga sinn sess í huga þjóðarinnar, auk þess sem Sigrún Eðvaldsdóttir leikur hina undurfögru hugleiðingu, Méditation, úr óperu Massenets, Thaïs. Hljómsveitarstjóri er Bjarni Frímann Bjarnason.

Páll Óskar og Sinfó 28. maí

Páll Óskar Hjálmtýsson mun stíga á svið með Sinfó fimmtudaginn 28. maí og mun flytja mörg af sínum þekktustu lögum í útsetningum fyrir hljómsveit. Páll Óskar hefur um áratuga skeið verið ein skærasta poppstjarna Íslands og er jafnvígur á stuðtónlist og ballöður. Páll Óskar kom fram með Sinfóníuhljómsveit Íslands á tónleikum árið 2011 við frábærar undirtektir og komust þá færri að en vildu.

Víkingur leikur Mozart 4. júní

Fimmtudaginn 4. júní verður Víkingur Heiðar Ólafsson í einleikshlutverkinu. Víkingur er einn dáðasti píanóleikari samtímans og hefur hlotið lof um allan heim fyrir tónleika sína og hljóðritanir á undanförnum árum. Á tónleikum leikur hann einn vinsælasta píanókonsert Mozarts, þann nr. 23, og auk þess stutt og glaðvært einleiksverk meistarans, Rondó fyrir píanó. Hljómsveitin flytur einnig hið sívinsæla Allegretto úr sjöundu sinfóníu Beethovens, en það hefur löngum verið meðal allra dáðustu tónsmíða hans. Hljómsveitarstjóri er Daníel Bjarnason, aðalgestastjórnandi Sinfóníuhljómsveitar Íslands.