EN

7. ágúst 2019

Frábær dómur í Gramophone og BBC Music

Nýr geisladiskur Sinfóníuhljómsveitar Íslands með tveimur sinfóníum franska tónskáldsins Charles Gounod hefur fengið frábæra dóma í helstu tónlistartímaritum klassíska geirans. Diskurinn kom út í apríl síðastliðnum og er hljómsveitarstjóri Yan Pascal Tortelier. Diskurinn var hljóðritaður í Hörpu í fyrravor á vegum breska plötuforlagsins Chandos sem hefur átt í samstarfi við hljómsveitina allt frá árinu 1992.

Í BBC Music Magazine fær diskurinn fimm stjörnur bæði fyrir flutning og hljóðritun. Gagnrýnandinn, Julian Haylock, segir að Tortelier og hljómsveitin komi vel til skila þeim geislandi töfrum og lífsgleði sem verkin búa yfir, og að íslensku hljóðfæraleikararnir leiki með „ómótstæðilegri hlýju“. Í júní tölublaði Gramophone er diskurinn valinn einn af tíu bestu útgáfum mánaðarins. Gagnrýnandinn Mark Pullinger segir að flutningur Sinfóníuhljómsveitar Íslands sé jafnvel enn betri en eldri útgáfa sömu verka með Academy of Saint-Martin-in-the-Fields hljómsveitinni undir stjórn Nevilles Marriner. Hann segir strengjasveit Sinfóníuhljómsveitar Íslands leika með árvekni og léttleika, og blásararnir leiki af þrótti, auk þess sem hljómburður Hörpu sé frábær.

3C2845CC-FF75-4569-A2C5-32901C304D97

Gagnrýnandi Gramophone lofaði hljóðritun Sinfóníuhljómsveitar Íslands
á sinfóníum Gounods í júní tölublaði blaðsins.

Fleiri lofsamlegir dómar hafa birst um diskinn á hinum ýmsu vefsíðum sem helgaðar eru klassískri tónlist. Classicalsource.com gefur fimm stjörnur og segir að Íslendingarnir leiki með tilfinningu og spilagleði, og að Tortelier viti upp á hár hvernig tónlistin eigi að hljóma. Á vefsíðunni The Classic Review segir gagnrýnandinn Tal Agam að þessi diskur sé besta útgáfa sem völ er á af sinfóníum Gounods, og nefnir fjórar aðrar í samanburði. Alexandra Mathew skrifar fyrir áströlsku síðuna Readings, og segir að Tortelier og íslenska hljómsveitin veki tónlist Gounods til lífsins með fjörmiklum og bjartsýnum flutningi sínum. Á vefum MusicWeb International segir rýnir að flutningurinn sé „dásamlegur frá upphafi til enda“ og einkennist af nákvæmni án þess að nokkuð glatist af fjöri og litbrigðum tónlistarinnar. „Ég get ekki nógsamlega mælt með þessum diski“, segir hann að lokum.

Á Spotify má hlusta á diskinn í heild sinni.

Diskurinn er til sölu í verslun Smekkleysu á Skólavörðustíg og Epal Hörpu.