EN

7. september 2016

GAMMA áfram aðalstyrktaraðili

Samstarfið framlengt til ársins 2020

GAMMA Capital Management og Sinfóníuhljómsveit Íslands gengu frá samstarfssamningi í dag þess efnis að GAMMA verður áfram aðalstyrktaraðili Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Samningurinn gildir til september 2020 og styrkir GAMMA hljómsveitina um tæplega 90 milljónir króna næstu fjögur ár. Meginmarkmið samningsins er að styðja við öflugt starf hljómsveitarinnar, efla kynningu á fjölbreyttu verkefnavali og breikka enn frekar í hópi gesta sem sækir viðburði á hennar vegum.

Ragnar Jónasson, yfirlögfræðingur GAMMA og rithöfundur, og Arna Kristín Einarsdóttir, framkvæmdastjóri hljómsveitarinnar, skrifuðu undir samkomulagið. GAMMA hefur verið styrktaraðili hljómsveitarinnar frá árinu 2011 og aðalbakhjarl starfseminnar frá 2013.

Samningurinn var undirritaður á æfingu hljómsveitarinnar í Hörpu fyrir fyrstu tónleika undir stjórn nýs hljómsveitarstjóra, Yan Pascal Tortelier. Tortelier er tíundi aðalhljómsveitarstjóri Sinfóníunnar frá því hún tók til starfa árið 1950. Hann hefur stjórnað mörgum virtum hljómsveitum á ferli sínum, þar á meðal Sinfóníuhljómsveit Lundúna, Fílharmóníuhljómsveitinni í Sankti Pétursborg, Konunglegu Concertgebouw hljómsveitinni og Fílharmóníuhljómsveitinni í Los Angeles. Hann hefur áður stjórnað tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands, fyrst árið 1998, á árinu 2012 og síðast í Hörpu í mars á þessu ári. 

Við undirskrift samningsins sagði Arna Kristín Einarsdóttir: 

Það er mikils virði fyrir Sinfóníuhljómsveitina að eiga að öflugan bakhjarl líkt og GAMMA. Samstarfið hefur verið mjög ánægjulegt, maður finnur sannarlega mikinn áhuga að baki stuðningnum við hljómsveitina sem er afar dýrmætt fyrir okkur og menningu landsins.

 

Samstarfið við Sinfóníuhljómsveitina hefur verið langt og farsælt, við lok samningsins hefur GAMMA verið styrktaraðili hljómsveitarinnar í tæpan áratug. Það er metnaður okkar að geta stutt áfram vel við menningu og listir í landinu og einkar ánægjulegt að geta staðið við bakið á okkar öflugasta tónlistarfólki. Sinfóníuhljómsveitin er í fremstu röð og vakið heimsathygli fyrir frábæran tónlistarflutning. Við erum stolt af því að geta lagt okkar á vogarskálirnar til að svo verði áfram, 

segir Gísli Hauksson, forstjóri GAMMA.

Samningur við Sinfóníuhljómsveit Íslands er hluti af stefnu GAMMA að styðja verkefni sem efla skapandi hugsun og fjölbreytt menningarstarf.