EN

15. desember 2016

Jólatónleikar Sinfóníunnar um helgina

Barbara trúður og Bernharður Wilkinson stjórna fernum tónleikum í Eldborg

Jólatónleikar Sinfóníunnar hafa fest sig í sessi í aðdraganda jóla hjá mörgum fjölskyldum á Íslandi. Á tónleikunum er hátíðleikinn í fyrirrúmi og þar eiga sígildar jólaperlur fastan sess. Í ár er lögð sérstök áhersla á jólatónlist frá öllum Norðurlöndunum og hljómar nýr forleikur með norrænum jólalögum í útsetningu Hrafnkels Orra Egilssonar. 

Hátt í 300 tónlistarmenn og -nemar stíga á svið á Jólatónleikum Sinfóníunnar í ár. Auk Sinfóníuhljómsveitar Íslands undir stjórn Bernharðs Wilkinson koma fram nemendur Listdansskóla Íslands, kóra Langholtskirkju, Skólahljómsveit Kópavogs, Bjöllukór Tónlistarskóla Reykjanesbæjar og táknmálskór. 

Einsöngvarar á tónleikunum eru Eivør Pálsdóttir, Hallveig Rúnarsdóttir og Kolbrún Völkudóttir. Trúðurinn Barbara kynnir tónleikana af sinni alkunnu snilld en tónleikarnir eru einnig túlkaðir á táknmáli. 

Þess má svo geta að nemendur úr Skólahljómsveit Kópavogs og Bjöllukór Tónlistarskóla Reykjanesbæjar flytja jólalög í Hörpuhorni fyrir og á eftir tónleikum. 

Íslenskur jólaforleikur