EN

16. maí 2017

Klassíkin okkar - Kjóstu þitt verk

Hvert er þitt uppáhalds?

Hver er uppáhalds óperuarían þín? Hvaða tilfinningaríka óperutónlist fær hárin til að rísa? Í annað sinn taka Sinfóníuhljómsveit Íslands og RÚV saman höndum og gefa landsmönnum kost á að ráða efnisskránni á fyrstu tónleikum hljómsveitarinnar á næsta starfsári. Boðið verður til sannkallaðrar óperuveislu 1. september næstkomandi í samstarfi við Íslensku óperuna en tónleikarnir verða í beinni útsendingu á RÚV.

Hljómsveitarstjóri á tónleikunum verður Daníel Bjarnason en einvalalið söngvara kemur fram með hljómsveitinni. Kynnar, líkt og í fyrra, verða Guðni Tómasson og Halla Oddný Magnúsdóttir.

Kjóstu þína uppáhalds aríu eða kafla

Nú er hafin netkosning á slóðinni ruv.is/klassikin þar sem allir landsmenn geta valið eftirlætis óperuatriðið sitt. 42 aríur og atriði hafa verið valin á þennan lista og þau sem hljóta flest atkvæði fá sinn sess í efnisskrá tónleikanna í haust.

Athugaðu að kosningunni lýkur 17. júní en ef þitt uppáhald er ekki að finna á listanum getur þú lagt það til í sérstökum reit fyrir neðan hann.

Ekki viss? Ekkert mál!

Á meðan á netkosningunni stendur verður Rás 1 til taks fyrir þá sem eru að gera upp hug sinn. Tónlistin á listanum verður kynnt í fimm útvarpsþáttum kl. 17 á laugardögum sem verða í umsjón Guðna Tómassonar. Þættirnir hefja göngu sína laugardaginn 13. maí. Hlustendur kveða svo upp sinn dóm á www.ruv.is/klassikin