EN

17. febrúar 2020

Komin heim eftir glæsilega tónleikaferð til Bretlands

Sinfóníuhljómsveit Íslands er komin heim eftir velhpennaða tónleikaferð um Bretland undir stjórn hljómsveitarstjórans Yan Pascal Tortelier. Hljómsveitin hélt átta tónleika í mörgum af helstu tónleikahúsum Bretlands og lauk með tónleikum í hinu glæsilega tónleikahúsi Usher Hall í Edinborg. Hljómsveitin fékk frábærar móttökur í Bretlandi og fengu tónleikarnir í Edinborg m.a. fimm stjörnur í The Herald og fjórar stjörnur í The Scotsman.

20200216_DSC9337_SINFO

Lokatónleikar Bretlandsferðarinnar voru í glæsilega tónlistarhúsi Usher Hall í Edinborg.

Ferðin var farin á 70 ára afmælisári Sinfóníuhljómsveitar Íslands en hún hélt sína fyrstu tónleika 9. mars 1950. Afmælinu verður fagnað á stórtónleikum í Eldborg 5. mars næstkomandi undir stjórn Evu Ollikainen, verðandi aðalhljómsveitarstjóra Sinfóníunnar.

Leeds

 

Hljómsveitin hélt tónleika í mörgum af helstu tónleikarsölum Bretlands, 
meðal annars í Town Hall í Leeds.

 

Yan Pascal Tortelier, fyrrum aðalhljómsveitarstjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands stjórnaði hljómsveitinni og Anna Þorvaldsdóttir, staðartónskáld hljómsveitarinnar var með í för en verk hennar Aeriality var flutt á öllum tónleikum ferðarinnar. Þá komu til liðs við hljómsveitina tveir heimskunnir píanóleikarar þau Jean-Efflam Bavouzet og Yeol Eum Son sem skiptust á að flytja píanókonsert Ravels. Einnig lék hljómsveitin L'Arlesienne svítuna eftir Bizet og sinfóníu nr. 1 eftir Sibelius.

20200208_DSC7599_SINFO

 

Anna Þorvaldsdóttir staðartónskáld var með í ferð en verk hennar Aeriality 
var flutt á öllum tónleikum hljómsveitarinnar í Bretlandi.

 

Hljómsveitin hefur hlotið mikið lof á tónleikaferðalaginu og gaf gagnrýnandi Reviews Gate tónleikunum í Nottingham fimm stjörnur og sagði: „Blóðheit spilamennska ásamt stefnufastri túlkun skildi áheyrendur eftir þyrsta í að heyra meira.“

Þetta var fyrsta tónleikaferð hljómsveitarinnar til Bretlands en áður hefur hún haldið eina tónleika í London á Proms-tónlistarhátíð BBC árið 2014.