EN

30. júní 2021

Kornilios Michailidis ráðinn staðarhljómsveitarstjóri

Á starfsárinu mun Michailidis stjórna tónleikum þar sem meistaraverk eftir tvö af dáðustu tónskáldum sögunnar, Mozaer og Beethoven, hljóma.  Hann mun einnig stjórna fjölskyldutónleikum með Töfraflautu Mozarts og tónleikum með nýrri sinfónískri tónlist eftir Högna Egilsson, auk þess að taka þátt í Íslandsfrumflutningi á verki Daníels Bjarnasonar, From Space I Saw Earth, sem samið var fyrir sinfóníuhljómsveit og þrjá hljómsveitarstjóra í tilefni af aldarafmæli Fílharmóníusveitarinnar í Los Angeles. Michailidis verður einnig Evu Ollikainen, aðalstjórnanda hljómsveitarinnar, til aðstoðar við æfingar og undirbúning tónleika, meðal annars við flutning á Valkyrjunni eftir Richard Wagner sem hljómsveitin flytur í samvinnu við Íslensku óperuna og Listahátíð í Reykjavík. 

Kornilios Michailidis stundaði píanónám við École Normale de Musique í París og við Jacobs School of Music í Bandaríkjunum og lauk meistaraprófi í hljómsveitarstjórn við Sibeliusar-akademíuna í Helsinki árið 2018. Hann var aðstoðarstjórnandi Finnsku útvarpshljómsveitarinnar 2016–17 og gegndi sömu stöðu við Fílharmóníusveit franska útvarpsins á árunum 2018–20. Hann hefur stjórnað fjölda hljómsveita og einnig við óperuhús, meðal annars Töfraflautu Mozarts við Teatro Real í Madrid, auk þess sem hann hefur stjórnað Sinfóníuhljómsveitinni í Lahti og Grísku útvarpshljómsveitinni.