EN

16. desember 2020

Listamenn Sinfóníunnar og Þjóðleikhússins hlakka svo til!

Þjóðleikhúsið og Sinfóníuhljómsveit Íslands tóku höndum saman og hljóðrituðu nýja útgáfu af laginu Ég hlakka svo til, í útsetningu Hrafnkels Orra Egilssonar sellóleikara undir stjórn Bjarna Frímanns Bjarnasonar hljómsveitarstjóra. Auk þess var tekið upp glæsilegt myndband þar sem listamenn beggja stofnana koma fram. 

Í lok óvenjulegs og krefjandi árs lítur listafólk yfir farinn veg og horfir björtum augum fram á veginn. Sviðslistafólk landsins hefur ekki getað sinnt sínum hefðbundnu störfum, tónleikasalir og leikhús hafa að mestu verið lokuð frá því um miðjan marsmánuð. Myndbandið er því eins konar saknaðar-, þakkar- og tilhlökkunarkveðja á þessum tímamótum þegar hillir undir lok baráttunnar. Upptökur fóru fram í Hörpu og Þjóðleikhúsinu á síðustu vikum þar sem listamennirnir komu einir eða í litlum hópum og tóku sinn hluta upp í samræmi við gildandi takmarkanir. Verkefnið er alfarið unnið af starfsfólki þessara stofnana.

Sinfóníuhljómsveit Íslands og Þjóðleikhúsið eru lykilmenningarstofnanir þjóðarinnar hvor á sínu sviði og fagna báðar 70 ára starfsafmæli í ár. Báðar stofnanir hafa bryddað upp á ótal nýjungum á árinu með það að markmiði að veita þjóðinni andlega næringu og gleði á þessum erfiðu tímum. Hins vegar hefur hefðbundið sýninga- og tónleikahald legið að mestu leyti niðri megnið af árinu vegna samkomubanns. Meðal verkefna sem stofnanirnar hafa boðið upp á eru heimsendingar listviðburða, streymisviðburðir, sjónvarpsútsendingar, aðventuvagn sem heimsækir dvalarheimili, sýningar fyrir skóla, útiviðburðir, ljóðaflutningur o.fl.

Lagið „Ég hlakka svo til!“ er vinsælt jólalag sem var upprunalega flutt hérlendis af Svölu Björgvinsdóttur. Lagið er þó upprunnið á Ítalíu eins og raunin er með svo mörg vinsæl jólalög hér á landi. Nýja útgáfan var útsett af Hrafnkeli Orra Egilssyni og flutt af Sinfóníuhljómsveit Íslands í Hörpu. Söngur leikara Þjóðleikhússins var tekinn upp í Þjóðleikhúsinu en upptökum stýrði Aron Þór Arnarsson. Myndband kveðjunnar var unnið af starfsfólki stofnananna tveggja. Leikstjóri var Jón Þorgeir Kristjánsson en Margrét Ragnarsdóttir og Halla Oddný Magnúsdóttir stýrðu verkefninu hjá SÍ. Guðjón Davíð Karlsson og Hallgrímur Ólafsson stýrðu söng yfir fimmtíu leikara. 

Sinfóníuhljómsveitin hefur á krefjandi tímum lagað sig að aðstæðum og fært þjóðinni tónlist í stórum sem smáum hópum, ferðast út um borg og bý, opnað heimili sín og spilað fyrir landsmenn heima í stofu. Ýmis tækifæri hafa falist í áskorunum síðustu mánaða og hafa nýjar miðlunarleiðir fært okkur enn nær mörgum hlustendum. En við söknum þess að hafa áheyrendur í sal, og getum ekki beðið eftir því að fylla Eldborg og upplifa listina saman

segir Lára Sóley Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands.

Við í Þjóðleikhúsinu höfum boðið landsmönnum upp á fjölmörg ný verkefni sem auðga andann og létta lund á þessum krefjandi tímum. Við höfum leitað nýrra leiða til að miðla list okkar, bryddað upp á ýmsu skemmtilegu fyrir börn og ungmenni og einnig heimsótt fjölda dvalarheimila á Aðventuvagninum svokallaða. Hljóðleikhúsið hefur fært okkur perlur íslenskra leikbókmennta í beinni útsendingu og í samstarfi við RÚV buðum við upp á leikhúsveislu í stofunni heima, þar sem sýndar voru margar ástsælustu sýningar síðustu áratuga. En við höfum líka nýtt tímann vel til að undirbúa væntanlegar leiksýningar og hlökkum óskaplega til að taka á móti áhorfendum á ný, hrífa þá með og skapa nýjar ógleymanlegar minningar!

segir Magnús Geir Þórðarson þjóðleikhússtjóri. 

Listamennirnir sem koma fram í kveðjunni 

Leikarar Þjóðleikhússins: Arnmundur Ernst B. Björnsson, Atli Rafn Sigurðarson, Baldur Trausti Hreinsson , Birgitta Birgisdóttir , Bjarni Snæbjörnsson , Björn Ingi Hilmarsson, Björn Thors, Ebba Katrín Finnsdóttir , Edda Björgvinsdóttir, Ernesto Camilo Aldazabal Valdes, Guðjón Davíð Karlsson, Guðrún Snæfríður Gísladóttir, Hákon Jóhannesson , Hallgrímur Ólafsson, Ilmur Kristjánsdóttir, Lára Jóhanna Jónsdóttir, Oddur Júlíusson , Ólafía Hrönn Jónsdóttir, Pálmi Gestsson, Ragnheiður K. Steindórsdóttir, Sigurður Sigurjónsson, Snæfríður Ingvarsdóttir, Snorri Engilbertsson, Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, Unnur Ösp Stefánsdóttir, Þórey Birgisdóttir, Þórhallur Sigurðsson, Þröstur Leó Gunnarsson, Vala Guðnadóttir, Vigdís Hrefna Pálsdóttir og Örn Árnason

Hljóðfæraleikarar Sinfóníuhljómsveitar Íslands: Bjarni Frímann Bjarnason, Sigrún Eðvaldsdóttir, Vera Panitch, Una Sveinbjarnardóttir, Helga Þóra Björgvinsdóttir, Hildigunnur Halldórsdóttir, Júlíana Elín Kjartansdóttir, Olga Björk Ólafsdóttir, Laura Liu, Pálína Árnadóttir, Bryndís Pálsdóttir, Zbigniew Dubik, Andrzej Kleina, Páll Palomares, Gunnhildur Daðadóttir, Sigurlaug Eðvaldsdóttir, Þórdís Stross, Ingrid Karlsdóttir, Þórunn Ósk Marinósdóttir, Guðrún Hrund Harðardóttir, Sarah Buckley, Ásdís Hildur Runólfsdóttir, Łucja Koczot, Sigurgeir Agnarsson, Steiney Sigurðardóttir, Hrafnhildur Marta Guðmundsdóttir, Guðný Jónasdóttir, Hávarður Tryggvason, Richard Korn, Gunnlaugur Torfi Stefánsson, Áshildur Haraldsdóttir, Julia Hantschel, Rúnar Óskarsson, Bryndís Þórsdóttir, Stefán Jón Bernharðsson, Frank Hammarin, Einar Jónsson, Sigurður Þorbergsson, Nimrod Ron, Katie Buckley, Steef van Oosterhout og Eggert Pálsson.