EN

5. mars 2020

Ljósmyndasýning úr 70 ára sögu hljómsveitarinnar

Í tilefni af afmæli hljómsveitarinnar er ljósmyndasýning á 1. hæð Hörpu. Þar gefur að líta fáeinar svipmyndir úr sjötíu ára sögu Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Galdrar tónlistarinnar verða aldrei fangaðir á ljósmynd, en þó getur góð mynd verið dýrmæt heimild um einstök augnablik, mikilvæga atburði og ógleymanlega listamenn. 

Fyrstu tónleikar Sinfóníuhljómsveitar Íslands, í Austurbæjarbíói 9. mars 1950. Róbert Abraham Ottósson stjórnaði hljómsveitinni. Ljósmynd: Sigurhans Vignir.

Sinfóníuhljómsveit Íslands leikur fyrir nemendur í Íþróttahúsi Melaskóla, árið 1951 eða 1952. Ljósmynd: Pétur Thomsen eldri.  

Sinfóníuhljómsveit Íslands flutti starfsemi sína í Háskólabíó árið 1961 og var það aðsetur hennar í hálfa öld. Hér sjást skólabörn flykkjast á tónleika hljómsveitarinnar í lok sjöunda áratugarins. Ljósmyndari óþekktur.

Vladimir Ashkenazy og Daniel Barenboim æfa píanókonsert nr. 2 eftir Chopin í Háskólabíói í desember 1971. Þetta var í fyrsta sinn sem Ashkenazy stjórnaði tónleikum hljómsveitarinnar. Ljósmynd: Ólafur K. Magnússon.

Osmo Vänskä stjórnar hljómsveitinni á sviði Carnegie Hall í New York árið 1996, en tónleikarnir hlutu mikið lof tónlistargagnrýnanda The New York Times. Ljósmynd: Steve J. Sherman.

Quarashi kom fram með Sinfóníuhljómsveit Íslands haustið 2001 en hljómsveitin starfar með flytjendum úr öllum greinum tónlistarinnar. Ljósmynd: Kristinn Ingvarsson.

Með tilkomu Hörpu fékk Sinfóníuhljómsveit Íslands loks tónleikasal á heimsmælikvarða. Hér er hljómsveitin ásamt Víkingi Heiðari Ólafssyni einleikara á opnunartónleikum Hörpu í maí 2011. Ljósmynd: Ómar Óskarsson.

Á fyrstu tónleikum sínum árið 1950 taldi Sinfóníuhljómsveit Íslands 39 hljóðfæraleikara en í dag eru þeir yfir 90. Myndin er tekin í Eldborg 2019. Ljósmynd: Ari Magg.