EN

14. september 2020

Minningarorð um Hallfríði Ólafsdóttur

Íslenskt tónlistarlíf verður ei samt án Hallfríðar Ólafsdóttur. Sinfóníuhljómsveit Íslands verður ei söm án Hallfríðar. Við kveðjum alltof snemma frumkvöðul og fyrirmynd, framúrskarandi listamann sem flutti okkur tónlist á ógleymanlegan hátt.

Hallfríður var leiðandi flautuleikari Sinfóníuhljómsveitar Íslands í rúma tvo áratugi. Hún lék einnig einleikskonserta með hljómsveitinni allt frá árinu 1996, þegar hún lék flautukonsert Carls Nielsen. Auk þess flutti Hallfríður konserta eftir Þorkel Sigurbjörnsson, Einojuhani Rautavaara og W.A. Mozart. Á Myrkum músíkdögum árið 2019 frumflutti Hallfríður konsert fyrir flautu og fagott eftir Pál Ragnar Pálsson, sem sérstaklega var saminn fyrir hana og eistneska fagottleikarann Martin Kuuskmann.

Framlag Hallfríðar til fræðslustarfs er ómetanlegt og vann hún í nánu samstarfi við hljómsveitina við þróun á fræðsluverkefninu um Maximús Músíkús. Fyrsta bókin kom út snemma árs 2008 en bækurnar urðu alls fimm. Síðasta tónlistarverkefnið um Maxímús Músíkús var pantað af SÍ og Fílharmóníusveitinni í Los Angeles fyrir Íslandshátíð Fílharmóníunnar árið 2017. Maxi er órjúfanlegur partur af Sinfóníuhljómsveit Íslands og mun halda áfram að gleðja og fræða börn hér heima og erlendis.

Hallfríði var umhugað um hljómsveitina sína og starf hennar. Hún var öflugur leiðari, skapandi, metnaðarfull og hæfileikarík. Við munum njóta framlags hennar til menningar og menntunar um ókomin ár.

Gleði Hallfríðar, orka og hvatning var einstök. Við þökkum fyrir einstaka samstarfskonu, félaga og vin. Hvíl í friði elsku Hallfríður.

Innilegustu samúðarkveðjur til Ármanns, Gunnhildar Höllu, Tryggva Péturs, fjölskyldu og vina.

Fyrir hönd Sinfóníuhljómsveitar Íslands,
Lára Sóley Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri