EN

6. maí 2011

Opnunartónleikar fá frábæra dóma

UppklappTónlistargagnrýnendur Morgunblaðsins og Fréttablaðsins gefa opnunartónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands í Hörpu fimm stjörnur.

"Víkingur stóð fyllilega undir væntingum. Vissulega voru öfgarnar í túlkuninni við þolmörkin. Innhverf draumastemningin var hreinlega úti í geimnum, og ofsalegur hraðinn í lokakaflanum eins og í formúlukappakstri. En það hæfði þessari tónlist. Griegkonsertinn er útjaskaður en hann hljómaði ferskur í meðförum Víkings. Og tæknilega séð var hann svo glæsilegur að maður naut hvers tóns." segir Jónas Sen, gagnrýnandi Fréttablaðsins.

Um flutning hljómsveitarinnar á 9. sinfóníu Beethoven segir Jónas. "Fyrstu þrír kaflarnir voru stórbrotnir, stígandin hæg en örugg undir markvissri stjórn Ashkenazys. Tilkomumikið var að sjá þrjá kóra fyrir aftan sviðið, Óperukórinn í Reykjavík, Hljómeyki og Kór Áskirkju. Og söngur kóranna var æðisgenginn í mögnuðum hljómburðinum! Það var eitthvað það flottasta sem maður hefur heyrt á lifandi tónleikum á Íslandi."

 

Ríkarður Örn Pálsson, gagnrýnandi Morgunblaðsins, var ekki síður hrifinn.

"Mikil ánægja var að Velkomin Harpa, sprækum og smellandi áheyrilegum hljómsveitarforleik Þorkels Sigurbjörnssonar á nýklassískt-þjóðlegum nótum, er bar með sér góðar líkur á framhaldslífi. Næst kom hinn rómantíski en síferski píanókonsert Griegs, m.a. þökk sé kristalstæru þjóðlagainntaki hans í slyngu sinfónísku jafnvægi. Í frábærum einleiksflutningi Víkings Heiðars, er tjaldaði magnaðri vídd af ekki eldri sólista, heyrðust jafnvel örveikustu tónar undraskýrt um allan sal. Var það jafnt til marks um djarfa túlkun, hljómgæði Eldborgar og vel heppnað eintaksval á spónnýjum Steinwayflygli; allt í fyrirmyndargóðu samvægi við hljómsveitina. Víkingur heldur áfram að koma á óvart með sídýpkandi nálgun sinni á klassískum meisturum, enda var honum vel fagnað.

Heimskunn níunda sinfónía Beethovens var síðust á blaði. Makalaust verk fyrir sinn tíma; í senn músíkalskt framsækið og pólitískt eldfimt á dögum nýherts einveldis er minnir í fljótu bragði á aðstæður Sjostakovitsj meðan Stalín var enn ofar moldu. Auðheyrt var að Ashkenazy kunni sinn Beethoven í þaula, jafnvel þótt sumar hljómsveitarfínessur færu e.t.v. fyrir minna en vert væri. Þá voru einsöngvararnir fjórir ekki alltaf jafnsamstilltir og óska mætti. Á móti vó öflugur en heiðtær söngur samkórs efstnefndu þriggja kóra er misstu hvergi tónhæð á alræmdum hátíðniköflum þáttarins, og er þá ekki lítið sagt. Áhrifin urðu því að vonum sterk og viðtökur heitar."