EN

9. maí 2011

Þriggja daga tónlistarveisla í Hörpu

Um eitt þúsund íslenskir flytjendur munu koma fram í Hörpu opnunarhelgina. Þar af koma 400 manns fram á opnunarkvöldinu sem verður  sýnt í beinni útsendingu í sjónvarpinu.

Ekki verður selt inn á tónleika sem verða á laugardaginn 14. maí og sunnudaginn 15. maí, heldur verða þeir opnir öllum, en Harpa verður opin almenningi í fyrsta sinn þessa tvo daga.
Þó verður selt inn á tvenna tónleika Maximús Músikús enda eru þeir ætlaðir yngstu börnunum og forráðamenn þurfa að geta gengið að sætunum sem vísum. Hver miði á tónleika Maximús verður seldur á aðeins 100 kr. til tákns um að aldarlöng bið eftir tónlistarhúsi í Reykjavík sé nú loks á enda. Sala hefst 28. apríl kl.12:00.

Opnunarhátíðin 13. maí í  beinni útsendingu
Sjálf opnunarhátíðin verður að kvöldi föstudagsins 13. maí og hefst bein sjónvarpsútsending frá henni kl.18.00. Hátíðin verður send út í beinni útsendingu á RÚV svo allir landsmenn geti notið þeirrar einstöku dagskrár sem sett hefur verið saman af þessu tilefni. Á tónleikunum mun birtast þverskurður af því besta sem íslenskt tónlistarlíf hefur upp á að bjóða. Alls koma rúmlega fjögur hundruð tónlistarmenn fram á opnunarhátíðinni. Meðal þeirra eru Sinfóníuhljómsveit Íslands, Íslenska óperan, ýmsir kórar, þar á meðal Raddir Íslands undir stjórn Þorgerðar Ingólfsdóttur, Gus Gus, Dikta, Páll Óskar ásamt Memfinsmafíunni og Víkingur Heiðar Ólafsson sem vígir nýjan konsertflygil, ásamt mörgum fleirum.

Opið hús 14. og 15. maí
Laugardaginn 14. maí verður svo opið hús í Hörpu með 12 tíma samfelldri tónlistardagskrá, frá hádegis til miðnættis. Um daginn verða ýmsir listamenn tónleika svo sem Ólafur Arnalds, Caput-hópurinn, Björn Thoroddsen og Kazumi Watanabe, tríó Tómasar R. Einarssonar og um kvöldið koma svo fram margar af þekktustu popp- og rokksveitum landsins: Hljómsveitin Mammút, Agent Fresco, Lights on the Highway, Valdimar, Hjaltalín, Jónas Sigurðsson og Ritvélar framtíðarinnar, Apparat Organ Quartet og HAM.
 
Sunnudagurinn 15. maí verður sérstakur barnadagur í Hörpu. Á sunnudag fer fram tónlistarhátíð barna í Silfurbergi. Þar má sjá brot af því besta sem börn og unglingar eru búin að gera í grunnskólum og tónlistarskólum borgarinnar í vetur og um þrjú hundruð börn koma fram. Þá verða sameiginlegir tónleikar Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Maxímúsar Músikús á dagskrá og ýmislegt fleira. (Uppselt er á tónleika Maxa).