EN

22. júlí 2009

Fiðlusnillingurinn Hilary Hahn á leið til Íslands

hahn_storBandaríski fiðlusnillingurinn Hilary Hahn er væntanleg til Íslands í mars á næsta ári og mun leika einleik í fiðlukonserti eftir Sergei Prokofíev með Sinfóníuhljómsveit Íslands.

Tónleikarnir verða liður í 60 ára afmælishaldi Sinfóníuhljómsveitarinnar sem hélt fyrstu tónleika sína 9. mars 1950. Árni Heimir Ingólfsson, tónlistarstjóri SÍ, segir komu Hilary mikinn happafeng fyrir hljómsveitina og að lengi hafi verið reynt að fá hana til að halda tónleika hér.

Hin 29 ára gamla Hilary Hahn þykir standa á hátindi frægðar sinnar um þessar mundir en í fyrra hlaut hún bæði Grammy-verðlaun og Gramophone-verðlaun sem einleikari ársins.

Hún útskrifaðist úr Curtis-tónlistarháskólanum 16 ára gömul og hefur síðan ferðast um heiminn og haldið hátt í 2000 tónleika. Hún lék m.a. einleik á fiðlu í tónlist kvikmyndarinnar The Village eftir M. Knight Shyamalan, og nýr geisladiskur hennar með fiðlukonserti Sibeliusar fór beint í fyrsta sætið á klassíska Billboard-listanum fyrr á þessu ári.

Tónleikar Hilary verða í Háskólabíói fimmtudagskvöldið 4. mars 2010 og er áskriftarsala hafin á skrifstofu SÍ. Almenn miðasala á staka tónleika hefst 1. september.

Nánar um tónleika Hilary Hahn