EN

  • maxi_listi

12. ágúst 2011

Tónleikar á Menningarnótt - frítt inn

Sinfóníuhljómsveit Íslands býður á tvenna tónleika á vígsludegi Hörpu á Menningarnótt. Frítt er inn á tónleikana og allir eru velkomnir á meðan húsrúm leyfir. Hægt verður að sækja aðgöngumiða í miðasölu Hörpu á tónleikadegi. Byrjað er að afhenda miða tveimur tímum fyrir tónleika.

 

Kl. 14:00 - Eldborg

Maxímús Músikús heimsækir hljómsveitina

Ævintýrið um Maxímús Músíkús, sem villist óvart á æfingu hjá sinfóníuhljómsveit í glænýju tónlistarhúsi, hefur farið sigurför um heiminn á síðustu árum. Bókin með ævintýrinu hefur m.a. verið gefin út á ensku, þýsku og kóresku.  Á tónleikunum hljómar tónlist úr ýmsum áttum, m.a. Hátíðargjall eftir Aaron Copland, Bolero eftir Maurice Ravel og Á Sprengisandi eftir Sigvalda Kaldalóns. Valur Freyr Einarsson er sögumaður og hljómsveitarstjóri er Bernharður Wilkinsson.

Kl. 17:00 - Eldborg

Klassík fyrir alla

Á tónleikunum verða leikin fjögur vinsæl og aðgengileg verk eftir klassíska meistara: Flautukonsert eftir Mozart og þrjú lífleg hljómsveitarverk eftir Tsjajkovskíj, Prokofiev og Glinka.

Einleikari er Stefán Ragnar Höskuldsson, en hann er einn þeirra íslensku tónlistarmanna sem hvað lengst hafa náð í hinum alþjóðlega tónlistarheimi.  Hann hefur verið flautuleikari við hina víðfrægu hljómsveit Metropolitan-óperunnar í New York frá árinu 2004. Hljómsveitarstjóri er Bernharður Wilkinsson.

Efnisská:

Mikhaíl Glinka: Rúslan og Lúdmíla, forleikur

W.A. Mozart: Flautukonsert í D-dúr

Sergei Prokofíev: Montag og Kapúlett, úr Rómeó og Júlíu

Pjotr Tsjajkovskíj: Vals úr Þyrnirós

Bernharður Wilkinsson hljómsveitarstjóri

Stefán Ragnar Höskuldsson einleikari