EN

18. ágúst 2011

Hugmyndasamkeppni

Sinfóníuhljómsveit Íslands kallar eftir hugmyndum að nýju tónverki þar sem hinar ýmsu listgreinar mætast. Verkið skal ekki vera meira en 20 mínútur að lengd. Það má vera fyrir heila sinfóníuhljómsveit (þó að hámarki 3.3.3.3./4.3.3.1, 3perc, hp, pno/cel, str), hluta hennar (allt niður í kammerhóp eða jafnvel einleikshljóðfæri), auk þess sem nota má vídeó, rafhljóð, og/eða dans. Verkið má einnig notast við t.d. rafhljóð eingöngu. Útgangspunkturinn er samruni ólíkra greina listarinnar og er útfærslan að öðru leyti frjáls. Fleiri en einn höfundur geta unnið saman að einni hugmynd og geta sent sameiginlega tillögu í keppnina.

Hugmyndum að verki skal skila í tölvupósti, og skal lýsingin vera að hámarki ein síða í Microsoft Word eða sambærilegu ritvinnsluforriti. Þar þarf að koma fram almenn lýsing á verkinu, framvindu þess, stíl og uppbyggingu. Einnig þarf að koma fram hversu margir flytjendur þurfa að vera til taks, hversu mikinn æfingatíma þarf fyrir verkið, sem og allar kröfur um tæknibúnað fram yfir það sem er til staðar á hefðbundnum sinfóníutónleikum.

Athugið að ekki er óskað eftir nótum eða hljóðskrám, heldur eingöngu hugmyndum að verkinu og lýsingu á útfærslu þess.


Tilkynnt verður um vinningshafa eigi síðar en 10. október 2011. Skilafrestur að fullgerðu verki (raddskrá og hljómsveitarraddir) er mánudagur 23. janúar 2012. Þátttakendur skuldbinda sig til að skila verkinu á réttum tíma. Sé verkið ekki tilbúið innan tilskilins tíma fellur flutningurinn niður.

Verkið verður flutt á nútímahátíð Sinfóníuhljómsveitar Íslands í Hörpu laugardaginn 3. mars 2012.

Dómnefnd skipa Ilan Volkov, aðalstjórnandi SÍ, ásamt tónlistarstjóra og tónleikastjóra hljómsveitarinnar. Niðurstaða dómnefndar er endanleg.

Hugmyndum skal skila í síðasta lagi á hádegi föstudaginn 23. september 2011
, á netfangið mailto:arna@sinfonia.is