EN

  • hillary_hahn_listi

5. september 2011

Fyrsta starfsárið hafið í Hörpu

Það eru merkir tímar hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands, sem nú hefur sitt fyrsta starfsár í nýju tónlistarhúsi. Framundan er fjölbreytt og forvitnileg dagskrá þar sem fjöldi framúrskarandi hljómsveitarstjóra og einleikara kemur fram með hljómsveitinni. Meðal þeirra helstu má nefna bandarísku fiðlustjörnuna Hilary Hahn, rússneska píanistann Denis Matsuev og þýsku sópransöngkonuna Christine Schäfer. Þá kemur fjöldi íslenskra sólista fram með hljómsveitinni, m.a. Víkingur Heiðar Ólafsson, Sigrún Eðvaldsdóttir, Einar Jóhannesson og Melkorka Ólafsdóttir.

Þetta starfsár er einnig sögulegt fyrir þær sakir að nýr aðalhljómsveitarstjóri og listrænn stjórnandi tekur við tónsprotanum. Ilan Volkov er einn áhugaverðasti og eftirsóttasti hljómsveitarstjóri sinnar kynslóðar og hefur hlotið mikið lof fyrir störf sín víða um heim undanfarin ár, m.a. á PROMS-tónlistarhátíðinni í Lundúnum þar sem hann er árlegur gestur.

Efnisskrá starfsársins ber merki þessara tímamóta og einkennist af stórum og glæsilegum hljómsveitarverkum. Meðal nýmæla er flutningur á öllum níu sinfóníum Beethovens á einu starfsári undir stjórn Hannu Lintu. Þá verða fjórar sinfóníur Gustavs Mahler á efnisskrá í vetur, þar af ein í flutningi Ungsveitar Sinfóníuhljómsveitar Íslands.

Af öðrum stórum verkum á starfsárinu má nefna Pláneturnar eftir Holst, Messías eftir Händel og Rómeó og Júlíu eftir Berlioz, sem flutt verður í fyrsta sinn á Íslandi á Listahátíð 2012. Ný og framsækin tónlist skipar veglegan sess, meðal annars á Airwaves, Norrænum músíkdögum og á nýrri alþjóðlegri tónlistarhátíð undir stjórn Ilans Volkov. Flutt verður tónlist úr James Bond-myndunum á glæsilegum tónleikum í flutningi  úrvalsliðs íslenskra söngvara. Kvikmyndatónlist Howards Shore úr Hringadróttinssögu verður flutt með kór, hljómsveit og einsöngvurum, auk þess sem fjölbreytt dagskrá verður fyrir börn og fjölskyldur þeirra í tónleikaröðinni Litli tónsprotinn.

Almenn miðasala er hafin í miðasölu Hörpu og á vefnum og sala áskirfta en enn í fullum gangi.