EN

17. október 2011

Ungsveitin hefur æfingar í Hörpu

Ungsveit Sinfóníuhljómsveitar Íslands

Hljómsveitarnámskeið Ungsveitarinnar mun standa frá laugardeginum 15. október til sunnudagsins 6. nóvember 2011. Þetta er í Þriðja sinn Sinfóníuhljómsveit Íslands heldur námskeiðið og að þessu sinni fer það fram í Hörpu og endar með tónleikum í Eldborg sunnudaginn 6. nóvember kl. 14:00.

Að þessu sinni mun verkefni hljómsveitarinnar vera hin stórbrotna sinfónía nr. 5 eftir Mahler. Svissneski hljómsveitarstjórinn Baldur Brönnimann mun stjórna námskeiðinu en jafnframt munu nemendur njóta leiðsagnar leiðandi hljóðfæraleikara SÍ.

Markmiðið er að gefa íslenskum tónlistarnemum tækifæri til að kynnast hinum sinfóníska heimi undir leiðsögn þeirra fremstu í greininni. Ekkert námskeiðsgjald er innt af hendi en meðlimir Ungsveitarinnar skuldbinda sig til að mæta vel undirbúnir á allar æfingar enda hörð samkeppni um að komast að. Yfir 140 umsóknir bárust og tugir efnilegra tónlistarnema þreyttu áheyrnarpróf til að fá inngöngu í hljómsveitina.

Baldur Brönnimann er tónleikagestum Sinfóníuhljómsveitar Íslands að góðu kunnur.
Hann hefur stjórnað hljómsveitinni í þrígang við góðan orðstír og lof gagnrýnenda.
Brönnimann er aðalstjórnandi Þjóðarhljómsveitarinnar í Kólumbíu en auk þess er hann listrænn stjórnandi norska kammerhópsins BIT20 og starfar reglulega með hljómsveitum á borð við London Sinfonietta, Skosku kammerhljómsveitinni og Sinfóníuhljómsveit Lundúna. Brönnimann hefur unnið mikið með æskulýðshljómsveitum, m.a. í Skotlandi og Ástralíu og heldur meistaranámskeið víða um heim.

Það er Sinfóníuhljómsveit Íslands sérstakt tilhlökkunarefni að fá að kynnast þessu unga fólki og koma þannig með beinum hætti að tónlistarmenntun í landinu.

Skoða æfingarplan