Ályktun stjórnar Sinfóníuhljómsveitar Íslands
Ályktun stjórnar Sinfóníuhljómsveitar Íslands vegna stöðu kjaraviðræðna hljóðfæraleikara Sinfóníuhljómsveitarinnar og ríkisins.Stjórn Sinfóníuhljómsveitar Íslands lýsir yfir þungum áhyggjum af stöðu mála í kjaraviðræðum hljóðfæraleikara Sinfóníuhljómsveitarinnar og ríkisins. Stjórnin hvetur málsaðila til að leita allra leiða svo ekki komi til boðaðra verkfallsaðgerða þann 3. nóvember næstkomandi.
Hlutverk Sinfóníuhljómsveitar Íslands er mikilvægt og fer vaxandi. Með tilkomu tónlistarhússins Hörpu hafa skapast nýir möguleikar á margvíslegu nýsköpunar- og þróunarstarfi sem unnið er á vegum hljómsveitarinnar. Faglegum og listrænum metnaði hljómsveitarinnar hafa loks verið skipuð ákjósanleg vaxtarskilyrði sem mikilvægt er að standa vörð um. Starfið hefur mælst afar vel fyrir og endurspeglast það í stóraukinni aðsókn að listviðburðum. Vinnustöðvun yrði reiðarslag og er það allra sem hlut eiga að máli að vinna að því að afstýra slíku áfalli.
Sinfónían ætlar sér áfram að vera leiðandi í íslensku tónlistarlífi og því er mikilvægt að sátt náist um kjör hljóðfæraleikara sem gerir þeim kleift að sinna starfi sínu svo vel sé.
- Eldri frétt
- Næsta frétt