EN

2. nóvember 2011

Samningar undirritaðir - verkfalli aflýst

 

Hljóðfæraleikarar Sinfóníuhljómsveitar Íslands undirrituðu kjarasamning  í húsi ríkissáttasemjara nú á áttunda tímanum í kvöld. Verkfall hefur verið afboðað og ljóst að fyrirhugaðir tónleikar á fimmtudag og föstudag verða haldnir.

Á tónleikunum verða Pláneturnar eftir Holst fluttar og rússneski píanistinn Denis Matsuev leikur píanókonsert nr. 2 eftir Rakhmaninoff. Matsuev hefur skipað sér í röð fremstu píanista heims og nú er einstakt tækifæri til að heyra hann leika í Hörpu undir stjórn Rumons Gamba. Uppselt er á fyrri tónleikana á fimmtudagskvöld en ennþá er hægt að tryggja sér miða á föstudag.